-1.5 C
Selfoss

Aðalsafnaðarfundur Hrunasóknar skorar á Vegagerðina

Vinsælast

Aðalsafnaðarfundur Hrunasóknar skorar á Vegagerðina að leggja bundið slitlag á veginn að Hrunastað

Á nýafstöðnum aðalsafnaðarfundi Hrunasóknar var m.a. rætt um ástand vegarins heim að Hruna og í framhaldinu var eftirfarandi áskorun um vegabætur samþykkt:

„Aðalsafnaðarfundur Hrunasóknar haldinn í safnaðarheimili Hrunakirkju mánudagsvöldið 15. apríl 2019 skorar á Vegagerðina að hlutast til um það að malarvegurinn frá Flúðum að kirkjustaðnum Hruna í Hrunamannahreppi verði lagður bundnu slitlagi hið fyrsta.

Hrunastaður er sögufrægur og hefur umferð ferðamanna að honum aukist mjög á undanförnum árum. Þar að auki er Hrunakirkja sóknarkirkja stórs hluta Hrunamannahrepps þ.m.t. Flúðahverfis og er það algerlega óásættanlegt að vegurinn að þessum merka stað sé illkeyranlegur allan ársins hring vegna djúpra hola, ryks og drullu, allt eftir veðráttu. Heflun og rykbinding er skammgóður vermir.

Heimafólk er orðið langþreytt á ástandinu og óskar úrbóta.“

Samþykkt var að senda þessa áskorun sem víðast.

Fjölbreytt starf í sókninni

Annars er starfið í kirkjum og hjá söfnuði Hrunasóknar með svipuðu sniði frá ári til árs. Auk tilfallandi útfara og brúðkaupa eru hefðbundnar messur, fjölskyldumessur, dægurlagamessur, hátíðarmessur, fermingamessur, ungmennamessa, uppskerumessa og aðventukvöld. Sjaldnast fara skírnir fram í þessum athöfnum, þó kirkjan sé oft nýtt til skínarathafna. Fjölbreytt og skemmtilegt starf sem er skipulagt af sóknarpresti og organista í samstarfi við sóknarnefnd. Þeir sr. Óskar og Stefán lita starfið af gleði og það smitar svo sannarlega út frá sér.

Öflugur kirkjukór

Ósjaldan er boðið uppá einhvers konar veitingar í safnaðarheimilinu eftir athafnir og ber þar hæst morgunkaffi á páskadag og pylsugrillun eftir uppskerumessuna. Sóknin hefur einn launaðan starfsmann í samvinnu við Hrepphólasókn, organistann Stefán Þorleifsson. Allt annað er unnið í sjálfboðavinnu og er ómetanlegt. Kirkjukórinn er stór, sameiginlegur með Hrepphólasókn, æfir einu sinni í viku og syngur í athöfnum þvert á sóknarmörk. Þetta er öflugur og góður félagsskapur sem gerir ýmislegt saman sér til skemmtunar.

Gott samstarf á milli sókna

Samstarf sóknanna fjögurra sem mynda Hrunaprestakall er gott. Sóknarnefndirnar hittast tvisvar á ári með organistum og sóknarpresti, sem heldur utan um að fundir séu haldnir, til skrafs, ráðagerða og kökuáts. Mjög góðar stundir og alveg nauðsynlegt að hittast, kynnast betur og ráða ráðum sínum. Þess ber að geta að fermingafræðslan fer sameiginlega fram í safnaðarheimili Hrunakirkju og hefur gert í mörg ár. Nokkuð er um það að íbúar prestakallsins sæki messur í aðrar kirkjur innan prestakallsins en sína sóknarkirkju, það mætti þó gjarnan vera meira og þá sérstaklega í fjölskyldumessurnar.

Ekki áhugi á sameiningu prestakalla

Það er ósk okkar í Hrunasókn, vegna nýlegra hugmynda um frekari sameiningar prestakalla, að ekki verði farið að hrófla við þessu starfi sem gengur vel. Við teljum ekki þörf á breytingum sem alls ekki er víst að verði kirkjustarfinu hjá okkur til góðs. Við vitum hvað við höfum en vitum ekki hvað við fáum. Hvaða hagræði og hagkvæmni eiga að nást við stærra prestakall hér er að okkar mati mög óljóst. Þá höfum við ekki heyrt nein rök sem benda til þess að þjónusta kirkjunnar á okkar svæði muni eflast með sameiningu. Nágrannaprestarnir leysa hvor annan af í fríum í núverandi skipulagi, fyrir kemur að okkar prestur sinni einhverjum athöfnum utan okkar sókna og eins koma aðrir prestar og sinna athöfnum innan Hrunaprestakalls ef sóknarbörn óska eftir því. Um þetta skipulag er góð sátt. Á meðan hlutirnir ganga vel af hverju mega þeir þá ekki vera eins og þeir eru?

F.h. Hrunasóknar.

Marta Esther Hjaltadóttir, sóknarnefndarformaður.

Mynd: (Marta Esther Hjaltadóttir)

Random Image

Nýjar fréttir