11.7 C
Selfoss

Starfsemi Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu

Vinsælast

Handverkssýning félagsins verður haldin í Hvoli, Hvolsvelli 4. og 5.maí 2019 og þar með líkur vetrarstarfinu sem byrjaði upp úr miðjum september.

Félagið starfar af krafti og er alltaf eitthvað um að vera á vegum þess alla virka daga vetrarins. Má þar nefna almennt handverk, útskurð í tré, kórstarf, spilað á spil, leikfimi, boccia o.fl. Kjararáð er starfandi í félaginu og einnig Öldungaráð í samstarfi við sv.félögin. Því miður hefur starfsemi þess legið niðri um tíma vegna reglugerðabreytinga.

Auk þessa voru haldnir tveir fræðslufundir, annars vegar um kjaramál eldri borgara og hins vegar um félagsþjónustuna almennt og einnig um næringu aldraðra o.fl.

Árshátíð félagsins var haldin 3. október 2018 í Katla mathús, sem er í LAVA setrinu á Hvolsvelli.

Við fórum á jólahlaðborð á Hótel Rangá, í leikhús og héldum tvö helgarnámskeið í línudansi í febrúar og mars. Áhugi er fyrir að halda fleiri slík á næsta vetri.

Aðalfundur félagsins sem haldinn var 21. mars sl. var fjölmennur og ágætur fundur. Þar var m.a. samþykkt tillaga frá stjórn og kjararáði FEB Rang. um bætt kjör eldri borgara og henni beint til landsfundar LEB sem haldinn var í Reykjavík 10. og 11. mars 2019. Var tillögunni fylgt eftir á fundinum, þar sem hún var tekin fyrir og til umræðu, og sameinuð fleiri tillögum um sama mál. Einnig var samþykkt tillaga frá Guðgeiri Sumarliðasyni um niðurfellingu erfðafjárskatts. Var hún send til formanna allra þingflokka sem eiga sæti á Alþingi Íslendinga. Þá komu einnig fram hugmyndir um námskeið í „gömlu dönsunum” og að athuga áhuga fólks um leikstarfsemi og verður þetta athugað með haustinu.

Ég vil að lokum þakka öllum sem komu að starfi félagsins, svo sem leiðbeinendum handverks og aðstoðarkonu þeirra, kórstjóra, skemmtinefnd, ferðanefnd, spilanefndum og kaffikonum, kjararáði, Öldungaráði, stjórn félagsins og öllum sem komu að starfi þess og tóku þátt.

Ég vil einnig þakka Héraðsnefnd Rangæinga fyrir þeirra mikla stuðning og fjárframlag til starfsemi FEB Rang. sem gerir okkur mögulegt að halda úti svo öflugri starfsemi sem raun ber vitni.

Að lokum þakka ég ykkur öllum kæru flélagar fyrir gott samstarf og samveru á liðnum vetri.

Gleðilegt sumar

Guðrún Aradóttir, formaður FEB Rang.

 

Nýjar fréttir