4.9 C
Selfoss
Home Fréttir Hólmfríður Magnúsdóttir til liðs við Selfoss

Hólmfríður Magnúsdóttir til liðs við Selfoss

0
Hólmfríður Magnúsdóttir til liðs við Selfoss
Hólmfríður Magnúsdóttir. Mynd: Umf. Selfoss.

Hólmfríður Magnúsdóttir skrifaði í dag undir árs samning við knattspyrnudeild Selfoss og mun hún leika með liði félagsins í Pepsi Max deild kvenna í sumar.

Þetta er gríðarlegur fengur fyrir ungt lið Selfoss en Hólmfríður, sem er 34 ára gömul, er ein reynslumesta knattspyrnukona landsins. Hún er í 2.-3. sæti yfir leikjahæstu knattspyrnukonur landsins með 286 meistaraflokksleiki. Hólmfríður er uppalin hjá KFR en hefur á sínum ferli leikið með KR, Val, ÍBV, Avaldsnes í Noregi, Kristianstad í Svíþjóð og Philadelphia Independence í Bandaríkjunum.

„Ég ætlaði ekki að spila fótbolta í sumar, en þegar grasið fór að grænka þá fór mig að kitla í tærnar og ég fór að íhuga þetta fyrir tveimur vikum síðan. Ég finn að áhuginn er enn fyrir hendi þannig að ég er ekki tilbúin til að hætta strax,“ segir Hólmfríður.

Hólmfríður spilaði síðast með KR sumarið 2017 og eignaðist svo son sumarið 2018.

„Ég ákvað bara að njóta þess að vera í fæðingarorlofi og er búin að ferðast mikið. Ég byrjaði að æfa sjálf í byrjun apríl en mun byggja mig hægt og rólega upp í samráði við Alfreð þjálfara. Ég er ekkert að stressa mig en á meðan ég er að byggja mig upp þá get ég nýtt reynsluna mína og gefið af henni til ungu stelpnanna. Þetta er ungur hópur og það eru margar efnilegar stelpur hérna,“ bætti Hólmfríður við.

„Ég er mjög spennt fyrir þessu. Ég er bara búin að mæta á eina æfingu en mér finnst hópurinn flottur. Ég á heima hérna á Selfossi og þetta hentar mér vel. Það eru spennandi tímar framundan og vonandi næ ég að setja inn eitt eða tvö mörk seinna í sumar.“