Forseti FIDE heimsótti Fischersetur

F.v.: Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, Arkady Dvorkovich, forseti FIDE, Smbat Luptian, stórmeistari, og Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrum forseti Skáksambands Íslands.

Mánudaginn 8. apríl sl. heimsótti Arkady Dvorkovich, forseti FIDE, ásamt fylgdarliði, Fischersetrið á Selfossi, en hann var m.a. heiðursgestur Reykjavíkurskákmótsins í Hörpu. Í þessari Íslandsferð hitti hann einnig Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra til að ræða þá hugmynd að halda heimsmeistaraeinvígið 2022 á Íslandi á 50 ára afmæli einvígis aldarinnar.

Með Arkady komu Smbat Luptian, stórmeistari og skólastjóri armenska skákskólans, og Konstantin Kiselev, aðstoðarmaður Arkadys. Þeir félagar komu við í Laugardælukirkjugarði og lögðu blóm á leiði Bobby Fischers og heimsóttu síðan Fischersetur.

Arkady var aðalframkvæmdastjóri HM í knattspyrnu í Rússlandi sl. sumar og þótti standa sig vel. Þá hefur hann verið aðstoðarmaður forsætisráðherra Rússlands.

DEILA