0.6 C
Selfoss

Vörðukórinn með tónleika

Vinsælast

Vörðukórinn er býsna stór þetta árið, eins og sjá má á mynd, enda koma félagar víða að, ekki bara úr Hreppum, Tungum og af Skeiðum, eins og var þegar kórinn var stofnaður heldur kemur fólk úr Flóa, Grímsnesi og Laugardal og núna síðustu misserin hafa nokkrir Rangæingar bæst í hópinn.

Það er því vel við hæfi að halda austur yfir Þjórsá en föstudagskvöldið 26. apríl verður Vörðukórinn með tónleika í Menningarheimilinu á Hellu og hefjast klukkan 20.

Tvennir aðrir tónleikar eru ráðgerðir, 17. apríl verður kórinn á Flúðum klukkan 20.30 og í Reykholtskirkju í Borgarfirði laugardaginn 27. apríl klukkan 16 í samvinnu við Reykholtskórinn.

Efnisskráin er fjölbreytt en sem dæmi má nefna lög sem eru tengd þeim héruðum sem við syngjum í eins og Rangárþing, gullfallegt lag Björgvins Þ.Valdimarssonar við ljóð Sigurjóns Guðjónssonar og Borgarnes Halldórs Sigurðssonar. Þá má nefna lag Sigurðar Ágústssonar Þú Árnesþing sem hefur fylgt kórnum lengi, við ljóð Eiríks Einarssonar sem er úr kvæðabálki sem hann nefnir Vísur gamals Árnesings. Því fer fjarri að þessi lög séu einhver héraðsrembingur, heldur miklu fremur óður til fjölbreytilegrar náttúru og landslags sem og mannlífs.

Í síðasta mánuði lauk kórinn við upptökur á geisladiski sem verður gefinn út í haust. Eru þar 17 lög og ekki laust við að nokkur spenningur sé hjá kórfélögum hvernig til hefur tekist og vonandi bíða væntanlegir kaupendur í röðum.

Stjórnandi Vörðukórsins er Eyrún Jónasdóttir í Kálfholti og undirleikari Arnhildur Valgarðsdóttir kórstjóri í Fella-og Hólakirkju.

Nýjar fréttir