5 C
Selfoss
Home Fastir liðir Félagsráðgjafar á Suðurlandi Samfélagsleg ábyrgð í lok afplánunar

Samfélagsleg ábyrgð í lok afplánunar

0
Samfélagsleg ábyrgð í lok afplánunar
Guðrún Magnea Guðnadóttir.

Á árunum 2009–2016 luku að meðaltali 197 einstaklingar afplánun á Íslandi, 49 afplánaði að fullu og 148 fengu reynslulausn. Þannig luku í hverjum mánuði að meðaltali 16 einstaklingar afplánun sinni eða 4 í hverri viku. Þegar líður að lok afplánunar er í mörg horn að líta en hver og einn þarf að huga að því hvað tekur við hjá sér, til að mynda þarf að skoða húsnæðismál, fjármál, atvinnumál og almenna virkni í samfélaginu. Séu þessir þættir til staðar við lok afplánunar getur það aukið líkurnar á því að viðkomandi nái að aðlagast að nýju að samfélaginu með sem öruggustum hætti. Félagsráðgjafar Fangelsismálastofnunar aðstoða meðal annars einstaklinga við að undirbúa ferlið, samskipti við stofnanir, sveitarfélög, fjölskyldur og atvinnurekendur. Svo að undirbúningur undir það að ljúka afplánun gangi sem greiðlegast fyrir sig skiptir sköpum hvernig samfélagið tekur á móti þessum einstaklingum. Viðmót og aðstoð sveitarfélaga, atvinnurekenda, stofnana og jafnvel nágrannar eru allt veigamiklir þættir og geta skipt sköpum þegar kemur að stuðningi við viðkomandi í aðlögunarferlinu.

Hvað getum við gert sem samfélag?
Húsnæðismálin eru oft og tíðum eitt mesta áhyggjuefni fólks í þessum sporum en allmargir standa frammi fyrir því að þurfa að horfast í augu við húsnæðisleysi við lok afplánunar. Húsnæðisleysi getur, fyrir ákveðinn hóp einstaklinga, verið áhættuþáttur hvað varðar ítrekun brota og því að hverfa aftur til fyrra lífernis. Mikilvægt er því að sveitarfélög myndi sér heildstæða stefnu um það hvernig taka eigi á móti fólki sem stendur frammi fyrir húsnæðisleysi í lok afplánunar. Það gefur auga leið að það getur reynst fólki afar erfitt að byggja sér upp framtíð eftir afplánun án þess að hafa þak yfir höfuðið.

Annar veigamikill þáttur í aðlögunarferlinu eru atvinnumálin og endurkoma fanga aftur út á vinnumarkaðinn. Erfitt hefur reynst fyrir fyrrum fanga að fá tækifæri á vinnumarkaði vegna sögu sinnar og veigra atvinnurekendur sér oft við því að taka áhættuna. Slíkar áhyggjur geta verið skiljanlegar en mikilvægt er að skoða hvern einstakling fyrir sig og þá sigra sem viðkomandi hefur náð á afplánunartíma sínum. Hann á jafnvel góða virknisögu á meðan á afplánun stóð og með meðmæli frá vinnustöðum fangelsanna. Algengt er að fyrrum fangar fái ekki tækifæri á atvinnuviðtali til þess að sína fram á hæfni sína, árangur í afplánun eða jafnvel fyrri atvinnusögu.

Hvatning til að gera betur
Síðast en ekki síst getur viðmót og viðhorf hins almenna borgara vegið þungt þegar einstaklingur stígur sín fyrstu skref út í samfélagið að nýju eftir afplánun. Stuðningur nærumhverfisins getur líkt og fram hefur komið aukið líkurnar á því að þessi hópur fólks nái settu markmiði, að aðlagast með sem bestum hætti að samfélaginu að nýju.

Með þessum skrifum eru sveitarfélögin hvött til þess að mynda sér heildstæða stefnu í húsnæðismálum einstaklinga eftir afplánun og atvinnurekendur hvattir til þess að leggja sitt af mörkum til samfélagsins með því að veita fyrrum föngum nýtt tækifæri á vinnumarkaði. Jafnframt er samfélagið í heild hvatt til þess að taka vel á móti einstaklingum eftir afplánun sem snúa allir aftur út í samfélagið með einhverjum hætti.

Guðrún Magnea Guðnadóttir, félagsráðgjafi MA hjá Fangelsismálastofnun ríkisins.