2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Lengi vel sofnaði ég við það eitt að opna bók

Lengi vel sofnaði ég við það eitt að opna bók

0
Lengi vel sofnaði ég við það eitt að opna bók
Gunnar Trausti Daðason

Gunnar Trausti Daðason, lestrarhestur Dagskrárinnar, er fæddur og uppalinn á Hólmavík en býr í Þorlákshöfn og starfa við pípulagnir í Reykjavík. Hann er kvæntur Guðrúnu Margréti Jökulsdóttur og sameiginlega eiga þau fjögur börn og eitt barnabarn, tvö barnanna frá fyrra sambandi Guðrúnar, Stein Inga og Ingibjörgu Erlu og svo Kristínu Lilju og Írisi Jökulrós. Barnabarnið er Ásdís Jökla og er Steinsdóttir.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Í dag er ég að lesa Herdeild hinna fordæmdu eftir Sven Hassel. Arnar bróðir minn benti mér á þessa spennusögu fyrir mörgum árum síðan og hefur hún verið á meðal nokkurra bóka sem ég gríp reglulega.

Hvernig bækur höfða helst til þín?
Reyndar hef ég nú ekki velt því mikið fyrir mér. En kannski má lýsa því þannig það að ef ég kemst í gegnum fyrsta kaflann án þess að fá leið á henni, þá klára ég bókina. Ég held mikið upp á gamlar klassískar fásagnir og verða Íslendingasögurnar alltaf í sérlegu uppáhaldi hjá mér. Það líka gaman og fróðlegt að grufla í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Ertu alinn upp við lestur bóka?
Ég minnist þess ekki að það hafi verið lesið fyrir mig þó sjálfsagt hafi það verið gert. Ég man vel eftir bókum á náttborðum mömmu og pabba og eldri systkinum mínum. Sjálfur las ég sem barn mest hasarblöð og auðvitað Andrés önd blöðin og svo allar teiknimyndasögurnar sem komu út á þeim árum. Tinnabækurnar, Samma, Sval og Val, Lukku Láka og Viggó viðutan svo eitthvað sé nefnt. Sjálfsagt má segja að þetta sé uppeldi mitt í bóklestri.

En hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég les mest á kvöldin og þá í svarasta skammdeginu. Einhvern veginn finn ég ekki þörfina til að lesa bækur í birtunni á sumrin.

Áttu þér uppáhaldshöfund?
Það eru bara höfundar Íslendingasagnanna ef þeir þá voru til. Njálu, Egils sögu, Grettis sögu og flestra ef ekki allra Íslendingasagna sem voru fyrst hafðar í munnmælum en seinna skrifaðar á skinn. Allar þær sögur eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Svo get ég líka nefnt höfunda eins og Sven Hassel sem er skemmtilegur og Jaroslav Hašek sem er algjör snillingur. Góði dátinn Sveijk er algjört meistaraverk. Hašek lést ungur maður úr berklum ef ég man rétt og náði ekki að ljúka bókinni. En það sem mér þykir svo merkilegt er saga Góða dátans hefði alveg getað endað þar sem hún endaði í bókinni. Vinur hans tók við verkinu og kláraði það en ég man ekki hvað hann hét.

Hefur bók rænt mig svefni ?
Já heldur betur og líka vöku. Lengi var það nú þannig að ég sofnaði við það eitt að opna bók. En undanfarin tuttugu ár eða svo hefur þetta snúist við og núna þarf ég virkilega að passa mig að hætta lestri tímanlega svo ég fái einhvern svefn. Ég er hins vegar svo heppinn að konan mín skammar mig alltaf fyrir svefninn því hún þolir illa ljósið frá lampanum auk þess sem hún hefur vanist hrotunum í mér og á erfitt með svefn þegar þær vantar.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ef myndi trúlega skrifa í anda Góða dátans og Íslendingasagnanna. Það held ég að yrði bók sem væri bleksins virði og jafnvel pappírsins líka.