-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Formannafundur SSK ályktaði um hollustu matvæla

Formannafundur SSK ályktaði um hollustu matvæla

0
Formannafundur SSK ályktaði um hollustu matvæla

Formannafundur Sambands sunnlenskra kvenna sem haldinn var 27. febrúar sl. samþykkti eftirfarandi ályktun:

„Mikilvægt er að viðhalda sérstöðu Íslands hvað varðar hollustu matvæla og heilbrigði búfjár. Sýklalyfjaónæmar bakteríur eru nú taldar ein stærsta ógn við lýðheilsu um heim allan. Einnig eru víða landlægir dýrasjúkdómar, sem íslenskt búfé og gæludýr hafa ekki ónæmi gegn.

Við teljum að neytendur geti haft mikil áhrif á hvernig þessi mál þróast með því að vanda valið við innkaup matvæla. Með því að velja matvörur, grænmeti, kjöt og mjólkurvörur, sem framleiddar eru innanlands stuðla neytendur að matvælaöryggi og bættri lýðheilsu. Ísland hefur sérstöðu á þessu sviði sem ber að viðhalda.

Varðandi merkingar á innfluttum matvælum ætti að vera ófrávíkjanleg skylda/regla að þær séu greinilega merktar með upprunalandi og vottun á hreinleika, sé slík vottun fyrir hendi.“

Rökstuðningur
Að áliti sérfræðinga í sýkla- og veirufræði fylgir innflutningi á kjöti, mjólkurvörum og eggjum umtalsverð áhætta á dýrasjúkdómum og einnig sýklalyfjaónæmum bakteríum, sem eru lífshættulegar, þar sem ekki eru til lyf við sýkingum af þeirra völdum. Innflutt grænmeti og ávextir geta líka borið með sér sýklalyfjaónæmar bakteríur.

Algengt er að innfluttar matvörur séu einungis upprunamerktar með EU, upprunaland er ekki tilgreint. Tilbúnir réttir geta innihaldið hvað sem er með uppruna hvaðan sem er og einu upplýsingarnar eru „framleitt fyrir“ eitthverja verslanakeðju, vörumerki eða ámóta. Kjúklingar merktir „Pakkað í DK“, hvað segir það um upprunann?

Því má bæta við að umtalsvert kolefnisspor verður til við flutning á matvælum landa á milli. Á Íslandi er vatn með því heilnæmasta sem þekkist. Raforkan er frá endurnýjanlegum orkugjöfum og um langt árabil hafa verið mjög strangar reglur í gildi um framleiðslu og meðhöndlun matvæla.

Því teljum við að mikilvægt sé að halda vöku sinni og hugsa áður en varan fer í körfuna. Ísland býr við einstaka sérstöðu á þessu sviði. Stöndum saman um að varðveita hana.