0.6 C
Selfoss

Saumastofan í Þorlákshöfn á erindi við fólk

Vinsælast

Það er mikið að gera í leikhúsmenningunni á Suðurlandi þessar vikurnar. Þrjá frumsýningar á einum mánuði. Fyrir leikhúsunnanda eins og mig er þetta æðislegt og sýnir gróskuna í áhugaleikhúsinu hér á Suðurlandi.

Eina af þessum frumsýningum var laugardaginn 8. febrúar sl. Þá frumsýndi Leikfélag Ölfuss sýninguna Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarsson í leikstjórn Guðfinnu Gunnarsdóttur.

Saumastofan er ein af þessum tímalausu sýningum. Hún á sama erindi við fólk í dag eins og hún átti þegar hún var frumsýnd hjá Leikfélagi Reykjavíkur haustið 1975. Sýningin vakti mikla athygli og var enginn byrjendabragur á henni þó hún væri fyrsta verk höfundar.

Sýningin í Þorlákshöfn var kraftmikil og leikgleðin kom vel yfir til áhorfenda. Styrkur sýningarinnar liggur í heildinni, þessum samstillta hópi leikara sem naut þess að koma þessu verki yfir til áhorfenda.

Á saumastofunni vinna sex konur og þó þær hafi unnið lengi saman þekkja þær ekki vel hver aðra en þegar slegið er í afmælisveislu í vinnunni slaka allir á og sögur þessara kvenna koma fram, hver af annarri.

Magga, sem er verkstjórinn, er leikin af krafti af Erlu Dan og fer hún vel með allar hliðar þessarar konu sem rís upp þegar maður hennar misstígur sig í viðskiptaheiminum. Sigga,sem unir vel við sitt þó lífið hafi ekki boðið henni upp í neinn dans, er mildilega leikin af Árnýju sem heldur trúverðugleika hennar allt til enda. Jónheiður leikur Diddu af skemmtilegum krafti og sýndi alveg nýjar hliðar af sér í þessu hlutverki. Ása, sem er í fullri vinnu allan sólarhringinn við að koma sér upp heimili og halda í við umhverfið er leikin af Ástu Margréti sem túlkar allar sveiflurnar í hlutverkinu af innlifun. Magnþóra fer afar vel með hlutverk Gunnu, sem er fyrrverandi áfengissjúklingur, og fetar línuna í túlkuninni af varfærni og gerir hana trúverðuga. Lilla sem er átján ára ólétt stúlka er leikin af Álfheiði og fer hún vel með þetta hlutverk.

Ingólfur leikur Kalla, klæðskerann á staðnum, og fer hann afar vel með þetta viðkvæma hlutverk sem er auðvelt að ofleika en Kalli var afar trúverðugur í meðförum Ingólfs. Siggi, sem á saumastofuna, er leikinnaf Róberti Karli sem tekst vel að sýna fjarlægð Sigga frá starfsfólki sínu og yfirmanninn sem örlítinn spjátrung. Daníel Máni fer vel með hlutverk Himma, sem er sendillinn á saumastofunni.

Undirrituðum leið mjög vel á frumsýningunni þó svo að bekkir leikhússins mættu vera ögn mýkri. Sýningin var kraftmikil og hvergi dauður punktur í henni. Leikstjóranum hefur tekist afar vel að mynda sterkt flæði í sýningunni og eins og áður hefur komið fram var leikgleðin ríkjandi í öllum sviptingum verksins og ég fór afar ánægður úr leikhúsinu þetta frumsýningarkvöld eins og allir aðrir frumsýningargestir sem ég ræddi við í lok sýningar.

Til hamingju Leikfélag Ölfuss með sýninguna og þakkir til leikstjórans sem enn og aftur sannar færni sína til að laða fram styrkleika leikarans og byggja sterka heild. Nauðsynlegt er að jafn öflugt félag og Leikfélag Ölfuss fái aðstöðu til að sinna list sinni við góðar aðstæður því að öflugt leikfélag styrkir öll samfélög sem það starfa í.

Magnús J. Magnússon

Nýjar fréttir