3.4 C
Selfoss

Nýjar tveggja herbergja íbúðir í Þorlákshöfn á 14,6 mkr.

Vinsælast

Framkvæmdir við byggingu fimmtán íbúða fjölbýlishúss að Sambyggð 14a í Þorlákshöfn, sem fyrirtækið Pró hús ehf. stendur, fyrir munu hefjast í apríl og er stefnt að því að afhenda íbúðirnar í júlí eða ágúst á þessu ári. Einnig er fyrirhugað að byggja þrjú raðhús með samtals níu íbúðum. Íbúðirnar verða boðnar til sölu á áður óþekktu verði.

Eigendur Pró hús ehf. hafa verið í nokkur ár að leita leiða til að geta boðið upp á góðan raunhæfan valkost fyrir íslenskan fasteignamarkað þar sem gott verð og gæði fara saman.

Eftir viðræður við Elliða Vignisson bæjarstjóra og bæjarstjórn Ölfus var ákveðið að hefjast handa og byggja í Þorlákshöfn enda þar boðið upp á gott byggingaland á sanngjörnu verði. Þorlákshöfn er ört stækkandi og vel staðsett og því góður búsetuvalkostur. Þar er grunnskóli, leikskóli, íþróttahús, sundlaug, heilsugæsla og öll almenn þjónusta, góð höfn, góðar samgöngur og styttra til Reykjavíkur en marga grunar.

Verksmiðjan sem framleiðir og hannar húsin fyrir Pró hús ehf. hefur framleitt sambærileg hús í yfir 20 ár, flest seld og upp sett í Rúmeníu, en einnig í Frakklandi, Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð og fleiri löndum. Erlendir hönnuðir í samvinnu við íslenska arkitekta og verkfræðinga sjá um hönnun fyrir Pró hús. Vanir menn frá verksmiðjunni koma svo og reisa húsin undir lögbundnu eftirliti íslenskra fagaðila eins og lög gera ráð fyrir.

Lægra verð en verið er að bjóða hér á landi
„Verðið er mun lægra en það sem verið er að bjóða á Íslandi í dag á nýjum íbúðum. Það er raunhæfur möguleiki að geta boðið tveggja herbergja rúmlega 50 fermetra íbúð á 14–16 milljónir og hér erum við að tala um 100% tilbúnar íbúðir með innréttingum og tækjum. Þessi verð geta staðist ef sveitarfélög eru tilbúin að stilla verði lóða og gjalda í hóf,“ segir Jón Valur Smárason, framkvæmdastjóri Pró hús ehf.

Að sögn Jóns Vals stefnir Pró hús ehf. að því bæta við á markaðinn vönduðu húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir unga sem aldna sem t.d. þurfa minna pláss en almennt er verið að bjóða í dag. „Þetta ætti einnig að geta orðið kærkomin viðbót fyrir sveitarfélög t.d. fyrir íbúðir til útleigu, hvort sem það væru félagslegar íbúðir, sambýli eða íbúðir sem væru með stofnanaframlögum til að geta boðið upp á ódýrari einingar þar sem gæði og byggingarlag er á pari við núverandi kröfur,“ segir Jón Valur.

Eigum að tryggja gott framboð af lóðum á viðráðanlegu verði
„Við sem stjórnum sveitarfélögum berum mikla ábyrgð og eigum að leita leiða til að tryggja gott framboð af lóðum, og eftir atvikum húsnæði, á viðráðanlegu verði. Sveitarfélög eiga ekki að standa í lóðabraski og alls ekki að sætta sig við framboðsvanda og okurverð á þessum nauðsynjum. Slíkt brask er ekki – eða á ekki að vera – okkar hlutverk. Okkar hlutverk er að veita þjónustu og hluti af því er að eiga gott framboð af byggingalóðum. Lóðirnar eiga því að vera á kostnaðarverði því öll álagning er í raun álagning beint á íbúa,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

„Hvað varðar fyrirhugaða framkvæmd Pró húsa, og fleiri aðila hér í sveitarfélaginu, þá höfum við lagt okkur fram um að vinna með þeim að framgangi þeirra verkefna á þeim forsendum sem að ofan greinir. Við finnum vilja, bæði íbúa og fyrirtækja, til að færa sig úr borginni hingað þar sem lóðir eru bæði betri og ódýrari. Þegar upp er staðið er ekki nema 35 mín akstur hér á milli og Ölfusið því í raun úthverfi Reykjavíkur þar sem í boði er sterk innri gerð svo sem gott framboð af leikskólaplássum, frábær grunnskóli, einstök íþróttaaðstaða og margt fleira.

Við bíðum nú spennt eftir útspili ríkisstjórnarinnar hvað húsnæðismál varðar og vonum einlæglega að það verði í þá átt sem hér frá greinir.  Sem sagt að leitað verði leiða til að bjóða gott húsnæði á hagstæðuverði,“ segir Elliði.

Random Image

Nýjar fréttir