-0.5 C
Selfoss

Hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands

Vinsælast

Þann 10. janúar sl. fór fram árlegur hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands. Fundurinn fór að venju  fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands að viðstöddum forseta Íslands og um 150 gestum, sem komu víðsvegar að af Suðurlandi.

Hefð hefur verið fyrir því á hátíðarfundum að fá kynningu á einhverju verkefni, sem sjóðurinn hefur styrkt. Þetta árið voru það Aníta Þorgerður Tryggvadóttir og Ingibjörg Steinunn Sæmundsdóttir styrkhafar frá 2016, sem kynntu sitt áhugaverða verkefni; Fjölþætt heilsurækt í sveitarfélögum.

Sveinn Aðalsteinsson stjórnarformaður sjóðsins fór yfir niðurstöðu dómnefndar sjóðsins og gerði grein fyrir niðurstöðum. Sjóðurinn ákvað að þessu sinni að styrkja tvö verkefni um 750.000 krónur hvort eða samtals 1.500.000 kr. Styrkhafar sjóðsins fyrir árið 2018 eru:

  • Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir vegna doktorsverkefnisins; Eyjafjallajökulsgos 2010 – áhrif á íbúa og enduruppbygging samfélaga. Í verkefninu er sjónum beint að seiglu samfélaga (community resilience) vegna náttúruhamfara. Kannað er hvernig íbúar, starfsfólk og viðbragðsaðilar í sveitarfélögunum Rangárþingi eystra og Mýrdalshreppi álitu sig í stakk búin til að takast á við eldgos áður en Eyjafjallajökulsgosið árið 2010 hófst, hvaða áhrif gosið hafði, og hvernig þessum samfélögum gekk að takast á við afleiðingar gossins.
  • Ástrós Rún Sigurðardóttir vegna mastersverkefnisins; Þáttur félags- og menningarauðs í námi og menntun barna með fjölmenningarlegan bakgrunn. Í verkefninu verður leitast við að svara því hvaða áhrif menningar- og félagsauður foreldra og forráðamanna hefur á nám innflytjendabarna í Sveitarfélaginu Árborg og jafnframt að rannsaka hvernig grunnskólakennarar og annað fagfólk í skólasamfélaginu stuðla að fjölmenningarlegri menntun nemenda sinna.

Það var forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sem afhenti styrkina og ávarpaði hann fundinn í kjölfarið.

Vísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands hefur síðastliðin 14 ár styrkt fjölmörg rannsóknarverkefni sem öll eiga það sameiginlegt að snúa að einhverju leyti að Suðurlandi. Þannig hefur sjóðurinn með stuðningi samfélagsins átt þátt í að búa til nýja og hagnýta þekkingu fyrir Suðurland.

Að Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands standa sameiginlega Fræðslunetið símenntun á Suðurlandi og Háskólafélag Suðurlands. Fjármögnun sjóðsins fer þannig fram að félög, stofnanir og fyrirtæki á Suðurlandi styrkja sjóðinn með árlegu framlagi, sem styktaraðilar ákveða sjálfir.  Styrktaraðilum fjölgar stöðugt og er það mikið ánægjuefni. Núvernadi styrktaraðilar sjóðsins eru eftirfarandi:

Mýrdalshreppur, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Landgræðsla ríkisins Gunnarsholti, Félag iðn- og tæknigreina FIT, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, Félag opinberra starfsmanna Suðurlandi, Dvalarheimilið Ás, Flóahreppur, Rangárþing eystra, Sveitarfélagið Árborg, Menntaskólinn Laugarvatni, Jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands, Sveitarfélagið Bláskógabyggð, Kötlusetur, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Samband sunnlenskra kvenna, Háskólafélag Suðurlands, Sveitarfélagið Ölfus, Sveitarfélagið Hornafjörður, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Suðurlandsskógar, Hveragerðisbær, Landsbankinn, Báran stéttarfélag, Skaftárhreppur og Kirkjubjæarstofa.

Fræðslunetið símenntun á Suðurlandi er vörsluaðili sjóðsins og þeir sem áhuga hafa á því að gerast styrktaraðli geta haft samband í síma 560 2030 eða á netfangið: fraedslunet@fraedslunet.is.

 

 

Nýjar fréttir