1.9 C
Selfoss
Home Fastir liðir Íslenskan er svo stór hluti af sjálfsmyndinni

Íslenskan er svo stór hluti af sjálfsmyndinni

0
Íslenskan er svo stór hluti af sjálfsmyndinni
Lestrarhestur vikunnar. Þórunn Jóna Hauksdóttir.

Þórunn Jóna Hauksdóttir er Selfyssingur að ætt og uppruna og eiga hún og eiginmaður hennar Hallgrímur Óskarsson tvö mannvænleg ungmenni. Þórunn Jóna stundar líkams- og hugrækt og slær golfkúlur öðru hvoru. Hún er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu, framhaldsskólakennari og íslenskufræðingur. Auk þess fylgist hún vel með þjóðmálum og unir sér við bóklestur og prjón og er áhugamanneskja um íslenskt mál.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Í aðdraganda jóla á hverju ári reyni ég að lesa sem allra mest af nýútkomnum íslenskum skáldsögum og kynna mér nýja höfunda. Ég hef komist yfir átta bækur síðasta mánuðinn. Í bland við nána samveru með fjölskyldunni á þessum árstíma veit ég ekkert betra en kafa í bók þegar aðrir sýsla sitt í kringum mig. Í framhaldi, á nýju ári, kíki ég vanalega í sögulegar skáldsögur. Ég er líka nýbúin að uppgötva storytel-appið. Í því hlusta ég mikið á á klassískar sögur, íslenskar og erlendar og sögur úr framandi menningarheimum.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Bækur á kjarnyrtri íslensku þar sem blæbrigði tungumálsins fá að njóta sín. Þar sem dregnar eru upp myndir af landslagi, tíðaranda og tilfinningum. Ég vil líka að stíllinn sé ögrandi því í honum felst sagan oftar en ekki og hversdagslegasta frásögn getur risið hátt ef vel er fram sett. Ég er að meina bækur sem maður tekur sér tíma í að lesa og smjattar á hverju orði, ef svo má segja. Ég les mikið af íslenskum skáldsögum og oft sögulegum fróðleik. Ljóð slæðast einnig með en ég dáist að höfundum sem geta komið hugsunum sínum á framfæri í þannig knöppu máli. Mér finnst mikilvægt að fólk lesi eða hlusti á bækur, spegli sig í sögupersónum og setji sig í annarra spor, sjái hið sammannlega, kynnist öðrum hugsunarhætti og oft annarri menningu. Maður þekkir líka sjálfan sig, líðan sína og skoðanir betur eftir góðan lestur og verður vonandi betri manneskja. „Blindur er bóklaus maður” er fyrir mér að sjá ekki annað fólk og umhverfi sitt jafnvel þótt verið sé að horfa.

Byrjaðir þú snemma að lesa?

Ég varð snemma læs og strax alæta á bækur. Oftar en ekki voru bækur til mín í jóla- og afmælispökkum. Uppáhaldsbókin mín var og er Bróðir minn ljónshjarta eftir Astrid Lindgren, hún á alltaf erindi, bæði við börn og fullorðna. Ég tætti líka í mig alls kyns alfræðibækur um ólík efni eins og heimsálfur og mannslíkamann. Ég kynntist svo barnabókum á ný þegar ég las fyrir börnin mín tvö sem eru hvort af sínu kyni. Grannmeti og átvextir Þórarins Eldjárns datt næstum í sundur af mikilli notkun og fleiri gæða bækur voru lesnar nokkuð reglulega. Gleði verður að ríkja þegar lesið er fyrir börn og þá hittir til dæmis Kafteinn Ofurbrók í mark. Að mínu mati ættu börn að hafa aðgang að bókum og blöðum á heimili sínu og auðvitað ótrufluðum samræðum við fullorðið fólk. Það er ekki bara lykillinn að því að þau verði góðir málnotendur heldur virkir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi, því í tungumálinu er vald falið. Íslenskan er svo mikilvæg því hún er svo stór hluti af sjálfsmyndinni. Það sniðugasta við hana er möguleikinn á endurnýjun í gegnum nýyrðasmíð. Nýtum það!

Hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Þær eru einfaldar: Lesa margt og mikið. Ég er meðvituð um að halda í lesturinn í stað þess að sitja yfir sjónvarpinu eða, að ég tali nú ekki um, símanum. Sem ungmenni hafði ég fyrir reglu að lesa Íslendingasögur um jólin. Þannig maníur grípa mig stundum og þá spóla ég í gegnum heilu höfundarverkin. Annars vil ég ekki koma mér upp lestrarvenjum. Það hljómar svolítið þvingandi.

En áttu þér einhvern uppáhaldshöfund?

Það er breytilegt frá einum tíma til annars og þróast bara áfram. Núna, frá höfundum skáldsagna, má ég ekki missa af neinu eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur eða Jón Kalmann Stefánsson en Auður Ava Ólafsdóttir og Bergsveinn Birgisson koma sterk inn. Ég viðurkenni að ég græt þegar ég les Jón Kalmann, þvílíkur stílsnillingur sem hann er.

Hefur bók rænt þig svefni?

Nancy Drew, sú eina sanna, sem ég las sem unglingur. Höfundurinn Carolyn Keene hafði vit á að enda kaflana þannig að maður varð að kíkja aðeins á þann næsta.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Mín hæfni liggur á öðrum sviðum en ég myndi fagna fleiri og fjölbreyttari bókum fyrir unglinga – sem eru besta fólk í heimi. Í því tilliti vil ég gjarnan sjá að rithöfundar og börn/unglingar skrifi saman (fleiri) bækur. Það getur ekki annað en komið eitthvað gott út úr því.