0.6 C
Selfoss
Home Fréttir Foreldrafræðsla fyrir verðandi foreldra

Foreldrafræðsla fyrir verðandi foreldra

0
Foreldrafræðsla fyrir verðandi foreldra
Rakel Ásgeirsdóttir.

Á meðgöngu er mikilvægt að fá góða fræðslu til að undirbúa verðandi foreldra undir fyrirsjáanlegar breytingar í lífinu. Eftir því sem kúlan stækkar er eðlilegt að ýmsar spurningar vakni um meðgönguna. Þegar settur dagur nálgast bætast svo oft við fleiri um fæðinguna, brjóstagjöf og umönnun nýburans. Mæðravernd gegnir þar mikilvægu hlutverki þar sem ljósmæður leitast við að svara jafnóðum þeim spurningum sem brenna á foreldrum hverju sinni.

Upplýsingar á netinu eru sífellt að verða aðgengilegri og til eru margar góðar síður með fræðslu fyrir verðandi foreldra. Sem dæmi má nefna ljosmodir.is og heilsuvera.is. Þar er að finna ýmsa pistla, bæklinga og einnig svör við algengum spurningum. Einnig er hægt að senda inn fyrirspurnir á ljosmodir.is ef svörin við ykkar spurningum er ekki að finna á síðunni.

Námskeið fyrir verðandi foreldra eru í boði á flestum heilsugæslustöðvum og hjá einkareknum fyrirtækjum. Innihald, lengd og kostnaður þeirra er því mismunandi. Algengt er að foreldrar sem eiga von á sínu fyrsta barni fari á fæðingarfræðslunámskeið. Námskeið um brjóstagjöf og umönnun nýbura eru einnig gott veganesti fyrir komandi hlutverk.

Ljósmæðravakt HSU á Selfossi býður upp á fæðingarfræðslu fyrir verðandi foreldra þeim að kostnaðarlausu. Hvert námskeið er hugsað fyrir 3 pör og tekur um 2 tíma. Þar er meðal annars farið yfir val á fæðingarstað, fyrstu merki um að fæðing sé að byrja, hvenær gott er að hafa samband við ljósmóður á fæðingarstað, gang eðlilegra fæðinga, bjargráð í fæðingu með og án lyfja og mismunandi fæðingarstellingar. Í lokin er síðan boðið upp á skoðunarferð um deildina. Námskeiðin eru á fyrirlestraformi og hvetjum við foreldrar til að taka virkan þátt með því að vera ófeimin við að spyrja spurninga. Námskeiðin eru auglýst á Facebook síðu deildarinnar, Ljósmæðravakt HSU Selfossi.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Rakel Ásgeirsdóttir, ljósmóðir HSU