8.9 C
Selfoss

Listir og skemmtilegheit í Skaftárhreppi næstu daga

Vinsælast

Árleg Uppskeru- og þakkarhátíð verður haldin í Skaftárhreppi dagana 1.–4. nóvember. Dagskráin er mjög fjölbreytt. Setning hátíðarinnar fer fram í Kirkjuhvoli í kvöld kl. 20, með árlegri verðlaunaafhendingu, tónlist frá Tónlistarskóla Skaftárhrepps og tónleikum Halla Reynis og Vigdísar.

Á föstudeginum er opið hús í Kirkjubæjarskóla þar sem nemendur taka á móti fólki og sýna ýmislegt sem þeir hafa unnið. Eftir skóla verður bíó fyrir börnin í Kirkjuhvoli. Myndlistarmaður hátíðarinnar er Ólöf Rún Benediktsdóttir. Myndlistarsýning hennar verður opnuð á föstudeginum kl. 16 og á laugardeginum mun listamaðurinn fara upp á þak Hótels Laka og segja frá vegglistaverkinu Fuglafans.

Á laugardeginum mæta höfundar með bækur sínar á listasýninguna í Kirkjubæjarstofu. Bókauppskera tengd Skaftárhreppi er rífleg þetta árið. Jón Hjartarson sem var skólastjóri á Klaustri í mörg ár kemur og segir frá bók sinni Kambsmálið. Lilja Magnúsdóttir sendi frá sér fyrstu skáldsögu sína, Svikarann og Vera Roth skrifaði Fornar ferðaleiðir í Vestur-Skaftafellssýslu og var sú bók gefin út síðastliðið vor. Lesið verður upp úr bókunum, þær verða til sýnis og sölu og höfundar árita fyrir þá sem það vilja.

Á hverjum degi verða tónlistarviðburðir. Á föstudagskvöld leika Flottir karlar í Kirkjuhvoli undir dansi og sérstakur dansstjóri mun stýra dansinum. Á laugardeginum kemur Árný Árnadóttir söngkona og syngur fyrir gesti og gangandi kl. 17–18. Tónleikarnir verða á Hótel Laka. Listamennirnir Árný og Ólöf Rún eru báðar aldar upp á Kirkjubæjarklaustri og skemmtilegt að þær skuli nú koma til baka og taka þátt í dagskrá Uppskeruhátíðar.
Viðeigandi er að hefja dagskrána á sunnudeginum með Þakkargjörðarmessu í Minningarkapellunni. Sr. Jóhanna Magnúsdóttir messar. Eftir messuna geta allir gengið að Kirkjuhvoli og borðað saman súpu og notið tónlistaflutnings nýrra starfsmanna Tónlistarskóla Skaftárhrepps, þeirra Zbigniew og Teresa Zuchowicz sem munu halda sína fyrstu tónleika í Skaftárhreppi.

Handverkið á sinn stað í dagskránni. Á laugardeginum og sunnudeginum verður opið í Handverksmiðjunni sem er í kjallara Kirkjuhvols og Pokastöðin verður opin í Kirkjubæjarskóla. Konur í Skaftárhreppi stýra handverkinu og á báðum stöðum getur fólk komið og tekið til hendinni.

Í Skaftárhreppi eru mörg veitingahús og þetta árið bjóða Hótel Laki, Fosshótel Núpar og Systrakaffi tilboð á mat og drykk.

Dagskrá hátíðarinn er á facebooksíðu: Uppskeru-og þakkarhátíð í Skaftárhreppi.

Nýjar fréttir