0.6 C
Selfoss

Spjaldtölvuvæðing í Reykholti

Vinsælast

Í síðustu viku fengu nemendur í unglingadeild Bláskógaskóla Reykholti afhentar spjaldtölvur til þess að nota í náminu. Gyða Björk náttúrufræðikennari og upplýsingatæknimeistari hóf leikinn með unglingunum, en hún hefur um langt skeið byggt sína kennslu á snjalltækjum og tölvum á alnetinu. Hún kenndi þeim á tækin og möguleikana sem þau bjóða upp á, aðra en leiki og afþreyingu. Í tímanum var farið yfir stafræna borgarvitund og ábyrgð hvers og eins á sínum gjörðum og orðum á netinu. Það var gaman að vera vitni að ljómanum í hverju andliti við þetta tækifæri.

Forsaga máls er sú að um málaflokkinn upplýsingatækni var stofnað upplýsingatækniteymi sem er skipað sex valinkunnum kennurum af öllum aldursstigum, bók- og verknámi. Lára Bergljót aðstoðarskólastjóri og smíðakennari stýrir starfi þess. Þær fengu það hlutverk að móta stefnu og sníða áætlanir og fylgja þeim eftir. Frammi fyrir fjórðu iðnbyltingunni og með hliðsjón að reynslu af slíkum verkefnum í Flúðaskóla og Árskóla á Sauðárkróki, var tekin sú ákvörðun að blása til sóknar í spjaldtölvuvæðingu. Á miðstigi og yngsta stigi hafa þessi tæki verið til staðar nokkur ár og nýst vel. Spjöldin henta líka ósköp vel í sérkennslunni. Nú var komið að unglingunum og teyminu datt í hug að leita til samfélagsins um styrki til kaupa á spjöldunum. Skemmst er frá því að segja að erindinu var svo undur vel tekið að styrkir fengjust fyrir nánast öllum tækjunum 20, sem keypt voru. Þau fyrirtæki og félagasamtök sem lögðu okkur lið voru Kvenfélag Biskupstungna, Lionsklúbburinn Geysir, Minningarsjóður Biskupstungna, Hótel Geysir og Friðheimar. Þeim flytjum við okkar kærustu þakkir fyrir þetta eftirtektarverða framlag.

Dúfur teiknaðar. Mynd: Bláskógaskóli.

Fleira skemmtilegt var að gerast í þessari vikunni. Arite myndmenntarkennari fékk nágranna sinn Martein Pál Friðriksson smíðakennara og dúfnabónda í Laugarási til þess að lána okkur nokkrar dúfur sem fyrirmyndir í teiknitíma. Það var áhrifamikið að kíkja inn í tímana hjá þeim yngri þar sem nærveran við þessa rósömu, tignarlegu fugla hafði greinilega bætandi áhrif á alla viðstadda. Einbeiting skein úr hverju auga og svipurinn lýsti áhuga og aðdáun um leið. Og það hvissaði í blýöntunum á blöðunum, þar sem nýir fuglar tóku smám saman á sig persónulegar myndir. Unglingavalið fékkst við annað listform – mótaði sína fugla í leirinn.

Gott er að eiga gæðasstundir í hugguhorninu Bláfelli. Mynd: Bláskógaskóli.

Mig langar líka til þess að segja ykkur frá Bláfelli. Þær Auður, Áslaug og Jóna, stuðningsfulltrúar á yngsta stigi, fengu frjálsar hendur til þess að útbúa hugguhorn. Í hornið við bláa vegginn undir stiganum, settu þær góða mottu, púða og teppi. Þetta horn nefna börnin Bláfell. Þar sitja minni námshópar í þeirra umsjá og lesa sér til yndis – á meðan einn í einu æfir sig að lesa upphátt fyrir þær. Þarna finnst börnunum gott að kúra og eiga gæðastundir saman. Talandi um lestur og þjálfun hans má geta þess að Íris Blandon stuðningsfulltrúi og leikkona m.m. tekur ljúflega á móti minni hópum og einstaklingum á bókasafninu, einnig til þess að æfa lesturinn. Þannig má sjá að við leggjum ríka áherslu þennan lykilþátt starfsins í Bláskógaskóla Reykholti.

Hreinn Þorkelsson, skólastjóri Bláskógaskóla Reykholti.

Nýjar fréttir