6.1 C
Selfoss

Kraftur í körlum og kótilettum

Vinsælast

Vetrarstarf Karlakórs Rangæinga er komið í fullan gang. Kórinn æfir nú af fullum krafti fyrir tónleika í Íþróttahúsinu í Þykkvabæ laugardaginn 10. nóvember næstkomandi, þar sem landskunnir tónlistarmenn koma einnig fram. Þeir eru Óskar Pétursson einsöngvari og Álftagerðisbróðir og Valgeir Guðjónsson tónskáld og Stuðmaður. Á dagskrá eru íslenskar söngperlur og kórlög sem sum hver eiga uppruna sinn í héraði.

„Við hlökkum mikið til að syngja með Óskari, hann er magnaður“, segir Hermann Árnason formaður Karlakórs Rangæinga. Spurður um hvort leyniþráður hangi á milli Rangæinga og Skagfirðinga, segist Hermann fullviss um að svo sé, þar komi bæði til söngur og hestar. „Við erum líka spenntir fyrir að vinna með Valgeiri, hann er er náttúrulega fluttur austur fyrir fjall og alveg fallinn fyrir hinum sunnlenska sjarma. Valgeir hefur samið marga perlu, bæði við eigin ljóð og annarra meistara“.

En hvers vegna er sungið í Þykkvabæ? „Þykkvibær er náttúrulega fornfrægur staður á okkar slóð. Þar er líka þetta ágæta hús sem við viljum prófa að syngja í. Það er ekkert leyndarmál að við eigum enga stóra kirkju í Rangárþingi, en kirkjur hljóma almennt vel. Nú viljum við sjá hvort við getum ekki fengið stærri húsin okkar til að hljóma, húsin sem taka svolítið af gestum“, segir Hermann.

Formaðurinn segir að í félagsstarfinu í Karlakór Rangæinga séu bæði gleði og kraftur. „Við syngjum til að fjármagna kórstarfið og höldum veislur“. Fyrsta veisla vetrarins er Kótilettukvöld Karlakórs Rangæinga á Hvoli á Hvolsvelli 20. október næstkomandi. „Við bjóðum heimsins bestu kótilettur á þjóðlegan hátt, í raspi og með tilheyrandi og svo öflugri skemmtidagskrá. Kótiettukvöldið okkar er orðið mjög vinsælt og það komast færri að en vilja. Það er því betra að menn tryggi sér miða tímanlega“, segir Hermann Árnason.

Nýjar fréttir