7.3 C
Selfoss

Samnorræn ráðstefna ungbarnasundkennara haldin á Selfossi

Vinsælast

Dagana 18. – 20 október nk. verður haldin samnorræn ráðstefna ungbarnasundkennara á Selfossi. Ráðstefnan ber nafnið Nordic Babyswim Conference og hefur verið haldin með tveggja ára millibili í fjölda ára. Einu sinni áður hefur ráðstefnan verið haldin á Íslandi, árið 2006 og þá í Reykjavík.

Erla Guðmundsdóttir, er ungbarnasundkennari og situr í stjórn Busla sem er félag ungbarnasundkennara á Íslandi. Félagið hefur undanfarin tvö ár staðið að undirbúningi ráðstefnunnar, en óhætt er að segja að öllu sé tjaldað til og helstu sérfræðingar í málaflokknum verða með fyrirlestra ár ráðstefnunni.

Aðspurð um hversvegna ráðstefnan sé haldin á Selfossi segir Erla: „Við sem stöndum að undirbúningnum töldum Selfoss heppilegan stað fyrir slíka ráðstefnu þar sem að þar er frábært hótel, Hótel Selfoss, ásamt því að í minna bæjarfélagi er auðvelt að ,,halda hópinn“ og það er stutt í sundlaugina á Selfossi.“ Dagskráin hefst 18. október en Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands mun setja ráðstefnuna.

Margir lesendur þekkja Guggusund og það starf sem Gugga hefur unnið í gegnum þau 27 ár sem hún hefur kennt ungbarnasund á Selfossi. Blaðamaður hafði samband við Guggu og spurði hvaða þýðingu svona ráðstefna hefði fyrir sundkennara. „Svona ráðstefna hefur alltaf mikla þýðingu fyrir þá sem starfa við kennslu í ungbarnasundi. Þarna koma saman margir aðilar víða að úr heiminum sem hafa sérþekkingu á þessu og miðla til þeirra sem á ráðstefnuna koma. Þó maður hafi starfað lengi við kennslu þá koma alltaf fram einhverjir punktar sem hægt er að taka með sér og nýta í kennslunni. Eins kynnist maður fólki frá öðrum löndum sem starfar við kennslu í ungbarnasundi og þá hafa myndast tengsl á milli kennara frá ýmsum löndum. Ég hef t.d. nokkru sinnum farið og fylgst með kennslu í ungbarnasundi í öðrum löndum. Eins er fróðlegt að fylgjast með rannsóknum sem gerðar hafa verið á þessum börnum og hvaða áhrif sundið getur haft á þau.“ Aðspurð að því hvað er mest spennandi á ráðstefnunni segir Gugga: „ Það er auðvitað margt. Á ráðstefnunni verður t.d. Ludmilla Rosengren, sænskur læknir, og stofnandi sænska ungbarnasundsambandsins. Hún hefur lengi verið áberandi við kennslu á ungbarnasundi í Svíþjóð og hefur hún t.d. gefið út bók um efnið. Mest spennandi finnst mér þó að heyra hvað Hermundur Sigurmundsson prófessor hefur að segja um hreyfiþroska barna. Hann hefur gert rannsókn hér á Íslandi á ungbörnum sem hafa verið í ungbarnasundi og sú rannsókn leiddi í ljós meiri samhæfingu og betra jafnvægi hjá börnum sem voru í ungbarnasundi en þeim sem voru ekki í sundi. Fróðlegt að sjá hvort hann er kominn lengra með þessar rannsóknir, því eftir að hafa kennt ungbarnasund hér á Selfossi í 27 ár þá veit ég að sundið getur haft geysilega jákvæð áhrif á hreyfiþroska barna, sem fylgir þeim svo áfram inn í fullorðinsárin.“

Það er óhætt að segja að viðburðurinn sé stór í sniðum og þekktur innan ungbarnasundheimsins. Aðspurð um fjölda og þjóðerni þátttakenda segir Erla: „Þar sem ráðstefnan hefur verið vinsæl utan Skandinavíu og þátttakendur koma úr öllum heimshornum fer hún fram á ensku. Í ár eru skráðir um 150 þáttakendur. Þeir koma m.a. frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Álandseyjum, Þýskalandi, Austurríki, Ástralíu, Bandaríkjunum, Eistlandi, Suður Afríku, Bretlandi, Írlandi, Ísrael og Tékklandi og einnig hefur verið sýndur áhugi frá Indlandi og Ungverjalandi.

 

Mynd:

Ungbarnasund.

Myndin er fengin af Facebooksíðu Nordic Babyswim Conference.

Nýjar fréttir