Kröfu um ógildingu íbúakosninganna hafnað

Mynd: Batteríið.

Þriggja manna nefnd á vegum Sýslumannsins á Selfossi hafnaði kröfum kærenda um ógildingu kosninga um miðbæ á Selfossi. Íbúakosningar voru haldnar þann 18. ágúst sl. þar sem kosið var um skipulagsmál á miðbæjarsvæði Selfoss. Þann 23. ágúst barst Sýslumanninum á Selfossi bréf, ásamt 14 fylgiskjölum, þar sem kærð var framkvæmd almennrar atkvæðagreiðslu í Sveitarfélaginu Árborg.

Meðal kæruefna var framlengdur opnunartími á kjörstöðum og rangar upplýsingar í kynningarbæklingi. Kjörnefnd sýslumannsins taldi að tveir annmarkar hefðu verið á undirbúningi kosninganna en hvorugur þeirra hafi talist geta haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

Niðurstaðan var tekin fyrir á fundi bæjarráðs þar sem kom fram að: „Bæjarráð fagnar þeim úrskurði kjörnefndar Sýslumannsins á Suðurlandi að hafna skuli kröfum kærenda um ógildingu íbúakosninganna 18. ágúst síðastliðinn.“