8.4 C
Selfoss

Miðbærinn og skólamálin í nýja Björkustykkinu eru stóru málin í dag

Vinsælast

Nýlega tók Gísli Halldór Halldórs­son við starfi bæjarstjóra í Sveitar­félaginu Árborg. Dagskráin heim­sótti Gísla í liðinni viku og bað hann að segja aðeins frá sjálfum sér og þeim málefnum sem eru efst á baugi í Árborg.

Miðbærinn og skólamálin
„Stóru málin í dag eru miðbærinn og skóla­­­málin í nýja Björkustykkinu. Nú fer Sig­tún Þróunarfélag ehf. að hefjast handa við að byggja upp miðbæinn. Þá þarf að vera ljóst að allir séu á sömu blaðsíðunni, þ.e. að bæjaryfirvöld og Sigtún þróunarfélag ehf. séu að tala saman um það hvernig þetta á að gerast. Við hyggjumst stofna með þeim samstarfshóp til að fara yfir alla hluti þess máls þannig að allir séu sam­­stíga. Þarna verði birtar fundargerðir svo íbúar geti fylgst með og séð hvernig mál­inu vindur fram.“

Uppbygging í Bjarkarhverfi
„Annað stórt mál er uppbygging í nýja Bjarkarhverfinu og þá ekki síst skólinn. Bæði Vallaskóli og Sunnulækjarskóli eru búnir að sprengja húsnæðið utan af sér. Við þurfum nauðsynlega á meira skóla­húsnæði að halda. Við erum að vinna með hug­myndir um að koma á fót bráðabirgða­húsnæði þ.e. að byggja upp Bjarkarskóla úr lausum skólastofum til að byrja með á meðan við erum að byggja varanlegt hús­næði sem mun auðvitað taka töluverðan tíma. Við þurfum rými fyrir fleiri skóla­nemendur strax á næsta ári. Þetta eru virki­­lega stóru verkefnin.“

Þörf á auknum mannafla
„Í nánustu framtíð þarf síðan að endur­skoða mönnun víða í sveitarfélaginu, hér í ráð­húsinu, hjá Veitunum og víðar, því það hef­ur svo margt vaxið og breyst. Það er víða orðin mikil þörf á auknum mann­afla. Við sjáum hversu gríðarleg úthlutun er á byggingalóðum og öðru slíku. Þetta eru stór verkefni fyrir embætti bygginga­full­trúa.“

Innviðir og ný Ölfusárbrú
„Síðan þurfum við auðvitað líka að berjast fyrir nýrri Ölfusárbrú. Einnig eru fleiri verk­efni sem við þurfum að vinna varð­andi innviðina eins og að klára ljós­leiðara­væðingu sveitarfélagsins að fullu og svo auðvitað aðalskipulagið. Þar þurf­um við að tryggja að það þjóni íbúunum sem best, þannig að vöxtur sveitarfélagsins í náinni framtíð verði okkur til farsældar en ekki þannig að það sé verið að keyra yfir okkur.“

Tækifæri niður á Strönd
„Ég vona að við getum styrkt og byggt upp staðina niður við Strönd sem við­komu­staði fyrir gesti. Það má flikka upp á garða og ljúka göngustígum, bæði niður eftir og á milli þorpanna. Ég held að það séu mikil tækifæri fyrir þá sem heimsækja Árborg að við bjóðum þá velkomna niður á strönd líka. Þar erum við núna að ræða við Mílu um að ljúka við að koma fólki á Eyrar­bakka í betra samband. Það vantar tengi­skáp sem við myndum gjarnan vilja sjá svo allir verði í góðu sambandi.“



Fæddur á Ísafirði
Gísli er fæddur á Ísafirði árið 1966. Hann er ættaður úr Ísafjarðardjúpi þar sem faðir hans Halldór Hermannsson fæddist en hann var bróðir Sverris Hermannssonar fyrrverandi alþingismanns. Móðir Gísla er Katrín Gísladóttir, fædd á Ísafirði en ættuð að austan. Gísli er giftur Gerði Eðvalds­dótt­ur og þau hjónin búa núna á Hvoli á Eyrarbakka. Þau eiga þrjú börn, Erling Fannar Jónsson, Katrínu Maríu Gísladóttur og Tómas Ara Gíslason sem öll eru flutt að heiman. Það er líka kominn hópur af barnabörnum.

Viðskiptafræðingur með meistaragráðu í haf- og strandsvæða­stjórnun
„Ég hef búið alla mína tíð á Ísafirði nema þegar ég fór í nám í viðskiptafræði í Háskóla Íslands í lok níunda áratugarins. Ég klár­aði viðskiptafræðina 1991 og fluttist síðan ásamt konunni aftur til Ísafjarðar. Meist­ara­gráðu mína sem er í haf- og strand­svæða­stjórnun, tók ég við Háskólasetur Vest­fjarða á Ísafirði. Háskólasetrið er und­ir hatti Háskólasetursins á Akureyri. Há­skólinn á Akureyri tekur út það nám og vottar,“ segir Gísli.

Ýmis störf við rekstur á Ísafirði
Fyrst eftir að Gísli kom úr námi starfaði hann við fjölskyldufyrirtækið Sund ehf. sem rak fiskvinnslu og stofnaði fyrsta fisk­markaðinn á Ísafirði. Þaðan fór hann yfir í rafverktakann Straum sem er sambærilegt fyrirtæki við Árvirkjann á Selfossi. Þar var Gísli verslunar- og skrifstofustjóri í tæp tólf ár. Eftir það réð Ólína Þorvarð­ar­dóttir, sem þá var skólameistari Mennta­skólans á Ísafirði, hann sem fjármálastjóra Mennta­skólans. Var hann jafnframt fyrsti fjármála­stjórinn við skólann. Þetta var í kringum 2004.

Bæjarfulltrúi tvö kjörtímabil
Gísli var spurður um aðkomu sína að bæj­ar­málum á Ísafirði. „Árið 2006 gaf ég í fyrsta skipti kost á mér sem bæjarfulltrúi á Ísa­firði og náði kjöri. Þannig að ég byrjaði í bæjarstjórn 2006. Þá varð ég strax um vet­ur­inn starfandi formaður bæjarráðs. Einnig var ég á móti Birnu Lárusdóttur forseti bæjarstjórnar það tímabil. Við vorum til skiptis ár í senn. Kjörtímabilið 2010–2014 var ég aftur bæjarfulltrúi og var með sama hætti forseti bæjarstjórnar á móti Albertínu Elíasdóttur sem er nú alþingismaður. Ég var einnig þá í bæj­arráði.“

Bæjarstjóri á Ísafirði 2014–2018
Gísli segir að á þessum tíma hafi byggst upp mikil reynsla hjá sér í bæjarmálunum. „Ég var formaður ýmissa nefnda á þessum tíma, félagsmálanefndar t.d., fræðslu­nefnd­­ar, varaformaður í skipulags- og bygg­ing­a­nefnd og leiddi auk þess ýmsa starfshópa. Árið 2014 ákvað ég að hætta að gefa kost á mér sem bæjarfulltrúi. Við komumst að samkomulagi ég og Í-listinn á Ísafirði að ég yrði bæjarastjóraefni list­ans. Í þeim kosningum þ.e. 2014 fékk Í-listinn hreinan meirihluta í fyrsta skipti og réð mig í framhaldinu sem bæjarstjóra. Ég var því bæjarstjóri í fjögur ár eftir að hafa hætt sem fjármálastjóri hjá Mennta­skólanum. Bæjarstjórastarfið á Ísafirði var frábært og skemmtilegt starf.“

Nýjar fréttir