3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Samanburðartilraunum oddvita Ásahrepps svarað

Samanburðartilraunum oddvita Ásahrepps svarað

0
Samanburðartilraunum oddvita Ásahrepps svarað
Egill Sigurðsson.

Í síðustu viku barst íbúum Ásahrepps bréf frá oddvita þar sem reynt er að skýra út hina hömlulausu græðgi sem nú á sér stað í yfirstjórn hreppsins. Einnig er þetta svar við ágætum greinum frá Ágústu og Elínu um málefni Ásahrepps, en þær skipa minnihluta í hreppsnefnd Ásahrepps. En það sem vakti sérstaka athygli mína var samanburður á launakjörum oddvita og sveitarstjóra, þar kemst Ásta Begga að því að þetta sé allt óverulegt eða um 1% munur. Mikillvægt er að samanburðurinn sé skýr og sömu atriði borin saman, en ekki með rangfærslum eins gert var í útsendu bréfi. Að vísu boðar Ásta Begga að hún ætli að taka einhvern snúning á þessu á næsta fundi hreppsnefndar og þar boðar hún bæði brot á sveitarstjórnarlögum og samþykktum Ásahrepps.

Hreppsnefnd
Skoðum samanburð fyrir og eftir kosningar, fyrir kosningar fengu 5 hreppsnefndar fulltrúar 8% af þingfarakaupi hver það er 88.096 kr. pr. mánuð fram að apríl 2017 voru þau laun 56.962 kr. Þessum greiðslum sem sveitarstjórnarmönnum er ekki heimild að afsala sér. Það kemur skýrt fram í sveitarstjórnarlögum 32, grein síðasta setning „sveitarstjórnarmaður má ekki afsala sér greiðslum sem honum eru ákveðnar á grundvelli þessara greinar“. Eftir kosningar var áfram miðað við 8% af þingfarakaupi sem sagt engin breyting.

Oddvitar
Víkjum þá að launakjörum oddvita. Fyrrverandi oddviti fékk 25% af þingfarakaupi það er 275.299 kr. pr. mánuði. Þau laun voru þannig síðasta ári kjörtímabilsins en fram að apríl 2017 voru oddvitalaun 178.000 kr. á mánuði. Að mínu mati var engin þörf á að hækka starfshlutfall oddvita, frekar hefði átt að huga að lækkun. Engin þannig verkefni eru framundan hjá Ásahrepp sem geta skýrt þörf fyrir aukið vinnu framlag oddvita. Núverandi oddviti fær 45% af af þingfarakaupi með 20% álagi sem gerir 594.645 kr pr. mánuð, þar til viðbótar eru þessi launakjör vísitölutryggð. Að setja 20% álag ofan á hækkun þingfarakaups sem flestum ofbauð sýnir algera veruleikafirringu. Munurinn á milli núverandi oddvita og fyrrverandi oddvita er því 319.346 kr. á mánuði. Sem sagt 15.328.608 kr. á heilu kjörtímabili, manni ofbýður græðgin. Auk þessara launa fær Ásta Begga nefndar- og stjórnarlaun í fjölmörgum samstarfs verkefnum sem og ýmsar aðrar greiðslur.

Sveitarstjórar
En skoðum einnig samanburð á fyrrverandi og núverandi sveitarstjóra. Fyrrverandi sveitarstjóri var með 70% af þingfarakaupi sem gera 770.836 kr. á mánuði enginn biðlaun eða vísitölutenging. Fram að apríl 2017 voru laun sveitarstjóra 498.421 kr. Ef við notum mánaðarlaunin eins og þau voru eftir hækkun þingfarakaups til samanburðar lítur dæmið svona út, 48 mánuðir x 770.836 = 37.000.128 á heilu kjörtímabili engin verðtrygging. Núverandi sveitarstjóri var ráðin í 50% starf og fær fyrir það 60% af þingfarakaupi sem gerir 660.716 kr. pr. mánuð. Hann fær að auki 6 mánaðar biðlaunarétt og vísitölutengingu. Hann fær sem sagt í laun á kjörtímabilinu sem er 48 mánuðir + 6 mánaða biðlaunaréttur samtals greitt fyrir 54 mánuði x 660.716 pr. mánuð = 35.678.664 kr. allt verðtryggt. Munurinn er tæp fjögur prósent en þar kemur verðtrygging hvers árs á móti. Þannig að hafa mann í 20% minna starfi kostar nánast það sama og verður jafnvel meira þegar verðtryggingin bætist við ár hvert.

Ansi var nú eina prósentið hjá Ástu Beggu oddvita ónákvæmt og allur samanburður hennar villandi. Þessari hömlulausu græðgi verður að linna það er ekkert sem réttlætir svona oftöku, manni ofbýður siðleysið.

Egill Sigurðsson fyrrverandi oddviti Ásahrepps.