1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Til hamingju með tækifærið

Til hamingju með tækifærið

0
Til hamingju með tækifærið
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Þótt oft sé hart tekist á í pólitík er vel hægt að ná saman þvert á flokkslínur. Það á ekki hvað síst við um skipulagsmál en á því sviði hef ég náð saman við fólk langt frá vinstri og hægri.
Selfoss, og þar með Árborg, stendur frammi fyrir einstöku tækifæri. Fáum bæjum gefst kostur á að byggja heildstæðan miðbæ án þess að hafa farið illa út úr stríði eða náttúruhamförum. Það sem gerir tækifærið enn stærra er að það skuli verða til á Íslandi þar sem allt of lítið er um bæi með sterka byggðarkjarna og mjög lítið af því sem talist getur söguleg byggð. Ástæðan er sú að þéttbýli myndaðist seint á Íslandi og lítil efni voru til að ráðast í framkvæmdir fyrr en eftir að „internasjonalisminn“ ruddi sér til rúms í arkitektúr. En eins og nafnið gefur til kynna fól stefnan í sér að hús væru byggð eins um víða veröld óháð sögu hvers lands og hefðbundinni fagurfræði.

Það skiptir gríðarlegu máli að vel takist til á Selfossi því tækifærið kemur ekki aftur. Miðbær Selfoss þarf að eldast vel, vera jafngóður, eða betri, eftir 50 ár og eftir 100 ár. Sagan sýnir að líkur stóðu ekki til að það tækist. Hætta var á að bærinn yrði fórnarlamb hönnunarsamkeppni með þeim afleiðingum að eftir 30 ár yrði sagt í afsakandi tón „já þetta er svolítið mikið 2018“. Eða að smátt og smátt risi ósamstæð byggð sem úr yrði minna en summa partanna. Eða tækifærinu yrði slegið á frest og eftir 20 ár stæði enn óbyggður melur í miðbænum.

En með skipulaginu sem íbúar Árborgar greiða atkvæði um á laugardaginn hefur orðið til tækifæri sem er ekki aðeins einstakt fyrir Selfoss og Árborg heldur landið allt. Ástæðurnar eru margar en m.a. þessar:

I. Aðferð sem hefur sannað sig
Áformin um hinn nýja miðbæ eru ekki tilraunastarfsemi. Þau byggja á aðferð sem hefur verið reynd margoft áður og virkar. Svo augljós eru áhrifin af því að eiga samstæðan og aðlaðandi sögulegan miðbæ að enn er verið að endurbyggja gamla miðbæi og -borgir víða um lönd, ekki hvað síst í Þýskalandi. Í tveimur af helstu borgum landsins, Frankfurt og Dresden er unnið að endurreisn gömlu miðbæanna með einstaklega góðum árangri og í höfuðborginni, Berlín, er þessa dagana verið að klæða hina ný-endurbyggðu keisarahöll að utan.

Í raun eru nánast allir „gamlir“ miðbæir þýskra borga og stærri bæja endurgerðir enda flestir jafnaðir við jörðu í seinni heimsstyrjöldinni. Það sama á við um flestar fegurstu borgir Póllands. Húsin eru þó ekki alltaf eins og þau sem áður stóðu á sama stað. Stundum eru hús flutt til og stundum byggð hús sem voru horfin löngu áður en sprengjurnar féllu.

Það hefur sýnt sig að slíkur sögulegur miðbær hefur gríðarleg áhrif á borgina alla. Hann skapar ímynd hennar og myndar aðdráttaraflið sem heldur henni saman.

Þetta kom glögglega í ljós eftir að múrinn féll. Í Austur Þýskalandi var uppbygging stöðluð og um allt land risu sams konar hverfi sams konar húsa. Nema í miðbæjunum. Sums staðar var leitast við að vernda og endurbyggja sögulega byggð en annars staðar byrjað frá grunni með tísku samtímans og tæknilega praktík að leiðarljósi. Eftir fall múrsins flutti fólk umvörpum vestur og íbúum fækkaði í nærri öllum bæjum og borgum í austurhluta landsins. En í ljós kom að borgum og bæjum sem höfðu verndað sögulega og einkennandi byggðarkjarna hélst miklu betur á íbúunum. Það sama átti við um fjárfestingu, atvinnulíf og að sjálfsögðu ferðamennsku. Dresden og fleiri borgir hafa nú snúið vörn í sókn og árangurinn lætur ekki á sér standa. Meira að segja fjármálamiðstöð Þýskalands, Frankfurt í vesturhlutanum, fylgdi fordæminu. Þrátt fyrir að borgin væri afar vel stæð og þekkt fyrir hæstu skýjakljúfa Evrópu fannst íbúunum skorta það aðdráttarafl sem byggðarkjarni í sögulegum stíl veitir.

Hér má sjá myndband sem sýnir uppbygginguna í Frankfurt: https://www.domroemer.de/projektfilm

Myndir úr nýjum miðbæjum í Frankfurt (t.v.) og Dresden (t.h.). Myndir: domroemer.de, neumarkt-dresden.de.

II. Gagnast öllum íbúum sveitarfélagsins
Heildstæður og aðlaðandi miðbær á Selfossi yrði nokkurs konar sameign íbúanna og til þess fallinn að auka verðmæti alls húsnæðis í sveitarfélaginu, bæði í dreifbýli og þéttbýli en einnig að renna stoðum undir fjölbreyttara atvinnulíf. Í byggð eins og fyrirhuguðum miðbæ verður til vettvangur fyrir ólíkan atvinnurekstur sem svo rennir stoðum undir atvinnulíf annars staðar í sveitarfélaginu. Það aðdráttarafl sem miðbærinn skapar gerir hann að eftirsóknarverðum stað til að reka ýmiss konar þjónustustarfsemi sem leiðir af sér margföldunaráhrif fyrir sveitarfélagið allt. Fjölbreyttur veitingarekstur og menningarstarf auka t.d. líkurnar á að fyrirtæki sem vilja starfa í grennd við slíka þjónustu komi sér fyrir í bænum. Þannig mætti lengi telja. Í atvinnuþróun leiðir eitt af öðru og miðbærinn getur orðið uppspretta jákvæðrar keðjuverkunar.

Fjölbreytt atvinnulíf styður augljóslega við efnahagslíf sveitarfélagsins og ver það fyrir sveiflum. Þótt fyrirtæki hætti rekstri og segi upp fólki taka önnur við vegna þess að staðurinn sjálfur hefur aðdráttarafl og er þannig jarðvegur fyrir nýsköpun. Sveitarfélagið á þá líka síður á hættu að verða jaðarbyggð höfuðborgarsvæðisins, svefnbær fyrir Reykjavík, þar sem laun eru lægri en í byggðum sem eru nær borginni. Það er vegna þess að bærinn hefur sjálfstætt aðdráttarafl.

III. Bætt úr skorti
Fyrirhugaður miðbær á Selfossi væri einstakur á Íslandi og myndi fylla í stóra eyðu. Þeir sem hafa ferðast til erlendra borga og bæja þekkja hversu mikilvægur „gamli bærinn“ er fyrir hvert byggðarlag. Þangað er ferðinni heitið og helst gist í nálægð við gamla bæinn, byggðina sem einkennir staðinn og sýnir hvort þú ert í Amsterdam eða Varsjá. Það fara ekki margir til Prag til að dveljast í úthverfunum.

Ekkert Evrópuland á eins lítið af sögulegri byggð og Ísland. Hlutfall húsa sem teljast byggð í hefðbundnum stíl, og eru þar af leiðandi einkennandi fyrir menningu staðarins, er líklega komið undir 1% á Íslandi. Í mörgum Evrópulöndum nemur þetta hlutfall tugum prósenta. En jafnvel þar sem hlutfallið er margfalt hærra en á Íslandi er enn bætt við. Í Bretlandi er t.d. meirihluti nýrra íbúðarhúsa í hefðbundnum breskum stíl. Hér, þar sem skorturinn er mestur, virðist virðing fyrir sögunni oft vera einna minnst. Í Reykjavík hefur góðærið birst í niðurrifi húsa sem gerðu gamla miðbæinn einkennandi fyrir borgina og í staðinn birtast hús sem gætu eins verið í skrifstofuhverfi í Düsseldorf, Reading eða Houston.

Það er ekki þar með sagt að það eigi að byggja allt í hefðbundnum stíl, öðru nær, en eitt styður annað. Ný stórhúsi úr gleri og stáli við Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn eru verðmæt vegna nálægðarinnar við gamla bæinn.

Gamli bærinn í Kaupmannahöfn gerir nýjar íbúðir í grenndinni mun verðmætari en ella.

IV. Það sem er gott fyrir ferðamenn er gott fyrir íbúa og fyrirtæki
Miðbær Selfoss yrði ómissandi áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn. Árborg yrði ein af meginstoðum ferðaþjónustunnar og undirstaða fjölbreytts atvinnulífs. Miðbærinn væri hvorki meira né minna en stærsta heildarbyggð sögulegra íslenskra húsa á sama tíma og Kvosin í Reykjavík færist enn fjær því að geta talist heildstæð byggð.

Það sem laðar að ferðamenn laðar líka að íbúa og fjárfestingu. Annars vegnar vegna þess að ferðamenn eru fólk, rétt eins og íbúarnir, og hins vegar vegna þess að þjónusta við ferðamenn skapar grunn að þjónustu fyrir íbúana og fyrirtæki bæjarins.

Hið síðarnefnda er auðvitað ekki algilt. Gámahótel og sjö lundabúðir gera ekki mikið fyrir heimamenn. Það gera hins vegar menningarstarfsemi, söfn, veitingastaðir, samgöngubætur, aukin verslun og viðskipti og falleg hús. Auk þess er það á margan hátt verðmætt fyrir byggðarlög að „komast á kortið“ sem áfangastaður.

Í hinum öra vexti sem verið hefur í ferðaþjónustu hefur ekki nóg verið gert af því að nýta meðbyrinn, á meðan hann varir, til að byggja eitthvað sem er til þess fallið að auka aðdráttaraflið og valkostina og renna varanlegum stoðum undir atvinnugreinina.

V. Uppspretta þróunar, ekki stöðnunar
Þegar byggt er í sögulegum stíl heyrist stundum sá frasi að fólk geti ekki búið á safni. Spyrjið íbúa í Kraká, fallegri gamalli borg í Póllandi, hvort borgin þeirra sé bara safn. Eftir fall kommúnismans tóku ferðamenn að streyma til borgarinnar en fljótlega fóru fyrirtæki að fjárfesta þar í auknum mæli, m.a. bandarísk tæknifyrirtæki, vegna þess að það var auðvelt að fá fólk til að setjast að í borginni. Hið hámenntaða og vel launaða starfsfólk sem fyrirtækin þurftu að ráða, eða senda til Póllands, vildi búa í aðlaðandi borg með fjölbreytta þjónustu. Kraká náði sér því á strik á undraskömmum tíma þegar Pólland losnaði úr viðjum kommúnismans.

En svo eru til ótal dæmi um miðbæi eða önnur hverfi sem hafa verið byggð samkvæmt hátísku síns tíma en svo dottið úr tísku og orðið lítið annað en safn þar sem stöðugt þarf að finna upp á nýjum átaksverkefnum til að hressa upp á staðinn.

Ólíkir miðbæir: Kraká og Coventry. Hvor er „safn“?
Myndir: wedrowiec.krakow.pl, telegraph.co.uk.

VI. Hið verðmæta og vannýtta samhengi
Annar kunnur og nokkuð yfirlætisfullur frasi sem stundum heyrist þegar byggt er samkvæmt hefðbundinni fagurfræði er að með því sé bara verið að byggja einhvers konar Disneyland.

Látum vera að stuðst hafi verið við hefðbundna fagurfræði í 3.000 ár vegna þess að hún byggir á lögmálum (raunverulegri fræði) sem virkar. Einkenni Disneylands (og Disneyworld) er ævintýrakastali í miðaldastíl og fyrirmyndin er hinn frægi Neuschwanstein kastala í Bæjaralandi, táknmynd ævintýra og rómantíkur. Sjálf fyrirmyndin, Neuschwanstein, gæti hins vegar á sama hátt talist „Disneykastali“. Kastalinn var byggður á seinni hluta 19. aldar, meira en 500 árum seinna en ætla mætti, af bæverskum prins sem hafði gaman af miðaldasögum. Kastalinn hefur hins vegar aldrei verið kláraður og aldrei verið nýttur sem annað en ferðamannastaður. Mikilvægið er þó ótvírætt og kastalinn hefur oft verið útnefndur helsti ferðamannastaður Þýskalands og eitt helsta tákn Bæjaralands. Kastalinn varð strax „ekta“ því samhengið var rétt.

Disneyland.
Neuschwanstein-kastali.
Ljósmynd af byggingu kastalans.

Myndir:publicaffairs.disneyland.com, neuschwanstein.com.

Það er nefnilega tvennt sem skiptir öllu máli þegar byggt er, gæðin og samhengið.
Dæmin sem mætti nota til að útskýra mikilvægi samhengis eru óteljandi.

Gothneska ráðhúsið í München er frægt einkenni borgarinnar. Það líkist öðru frægu ráðhúsi, ráðhúsinu við Grand Place í Brussel sem byggt var upp úr 1400. Tvífarahúsið í München var hins vegar byggt á 20. öld en samhengið er rétt.

Ráðhúsin í Brussel (t.v. og Munchen (t.h.). Aldursmunurinn er 500 ár. Myndir: Brussels.info, munchen.de

Höfuðborgir fylkja í Bandaríkjunum státa flestar af glæsilegum klassískum ráðhúsum. Gestum þykir stundum undarlegt að sjá slík hús í hinum ungu miðríkjum landsins, umkringd skrifstofubyggingum og hraðbrautum. Flest eru þau samt eldri en mörg af þekktustu ráðhúsum Evrópu. Ráðhúsið í Des Moines í miðjum maísökrum Iowa er t.d. talsvert eldra en ráðhúsin frægu í Munchen og Hamborg og þinghús Bandaríkjanna er eldra en breska þinghúsið. Breska þinghúsið var að mestu leyti byggt á 19. öld í stíl sem þá var 500 ára gamall. En samhengið er rétt, það virkar.

Hallir í frönskum endurreisnarstíl í úthverfi Dallas eru ekki það sama og samskonar hallir í sveitum Frakklands óháð byggingarárinu o.s.frv. o.s.frv.

Ráðhúsið í Des Moines í Iowa er mun eldra en ráðhúsið í Hamborg. Myndir: dmgov.org, hamburgtravel.com.

Hér á sögueyjunni eigum við hið verðmæta samhengi en við höfum nánast ekkert nýtt það fyrr en nú. Ef vandað verður til verka eins og fyrirheit eru um verða hin nýju sögulegu hús á Selfossi því strax „ekta“.

VII. Hús með sögu
Tveir meginkostir fylgja því að endurbyggja hús sem áður hafa staðið.
1. Enginn vafi leikur á því að hönnunin er ekta. Ekki er byggt á tilgátu um hvernig hús hefðu getað litið út. Nákvæmlega svona hús voru byggð og það voru ástæður, praktískar, menningarlegar og fagurfræðilegar fyrir því að þau voru byggð með þeim hætti. Húsin eru með öðrum orðum sögulega rétt og hafa því menningarsögulegt gildi.

2. Húsin erfa sögu forveranna. Fyrra notagildi, íbúar og atburðir sem tengjast húsunum fá á ný tengingu við samtímann. Það gefur húsunum aukið gildi og skapar ótal möguleika við að nýta þau og gera þau áhugaverð í samtímanum.

VIII. Framkvæmd sem stendur undir sér sjálf
Ólíkt því sem á við í þeirri endurbyggingu sem ég nefndi að ofan, t.d. í Dresden, Frankfurt og Berlín er ekki gert ráð fyrir opinberum styrkjum eða gjöfum frá almenningi til að gera framkvæmdina mögulega. Víða hafa sveitarfélög og almenningur gefið peninga til slíkra verkefna vegna mikilvægis þeirra fyrir byggðarlagið og íbúa þess. Það vill okkur til happs að hinn íslenski byggingarstíll er ekki eins dýr í framkvæmd og sögulegar byggingar í Mið-Evrópu.

Berlínarhöllin. Almenningi gefst kostur á að styrkja verkefnið t.d. með því að kaupa skreytingu eða glugga. Myndir: berliner-schloss.de.

IX. Hinn íslenski stíll
Ferðamenn vilja sjá og upplifa meira en náttúru landsins. Þeir vilja líka kynnast sögunni og menningunni, hinu manngerða umhverfi. Á Selfossi verða saman komin mörg af áhugaverðustu verkum íslenskrar byggingarsögu. Auðvitað voru húsin hönnuð undir áhrifum frá Noregi, Danmörku, Sviss og öðrum löndum en slíkt á alltaf við um sögulega byggingarlist. Ítölsk áhrif eru mikil í mörgum borgum Þýskalands, hollensk áhrif í Frakklandi og öfugt. Þannig má rekja þróunina aftur til Forngrikkja. En það verður ekki öðru haldið fram en að húsin á Selfossi verði íslensk hús. Íslendingar eru líka Íslendingar þótt þeir séu flestir ættaðir frá Noregi og Bretlandseyjum.

Ekki kemur að sök að mörg húsanna hafi áður staðið í öðrum landshlutum. Það má þvert á móti líta á það sem kost, þarna verða fulltrúar ólíkra landshluta saman komnir. Auk þess er aldalöng hefð fyrir því á Íslandi að færa til hús, jafnvel milli landshluta.

X. Heildarmynd
Það er mikill kostur að miðbærinn skuli vera skipulagður sem ein heild en óvíða hefur náðst heildarmynd í skipulagi á Íslandi. Með því að skipuleggja miðbæinn sem heild gefst kostur á að ná góðu samspili milli bygginganna sem hann mynda, hanna götumyndir og sjónarhorn. Ná fram áhrifum sem væru óhugsandi ef gert væri ráð fyrir að svæðið byggðist á löngum tíma af ólíkum aðilum með ólíka sýn á hvernig bærinn ætti að líta út.

Það gleymist iðulega að í þéttbýli eru húsin bara hluti af heild og áhrifin ráðast af því hvernig næstu hús líta út og samspilinu þeirra á milli.

XI. Styður við aðra hluta Árborgar
Nýi miðbærinn á Selfossi yrði ekki í samkeppni við önnur byggðarlög í Árborg. Hann myndi þvert á móti styðja við þau. Þegar Selfoss verður orðinn ómissandi áfangastaður verða aðrir hlutar Árborgar það líka. Ferðamaður sem kemur í miðbæinn á Selfossi er líklegur til að vilja líka sjá gamla þorpið á Eyrarbakka enda allt annars konar upplifun. Ég sé fyrir mér nýjan „gullin þríhyrning“ í ferðaþjónustu. Selfoss með miðbæinn og ána, Eyrarbakka sem hið einstaka gamla íslenska þorp og Stokkseyri umkringdan magnaðri strandlengju, vötnum og tjörnum. Inn á milli svo hin fallega græna sveit. Þetta yrði almennilegur heildarpakki þar sem eitt styður við annað.

XII. Framtíðin
Verði hinn sögulegi og áhrifaríki miðbær byggður á Selfossi mun enginn segja eftir 50 ár „ég vildi að þetta hefði ekki verið byggt“. Glatist tækifærið verður eftirsjáin hins vegar mikil.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
formaður Miðflokksins.