7.1 C
Selfoss
Home Fréttir „Ekki meir, ekki meir!“

„Ekki meir, ekki meir!“

0
„Ekki meir, ekki meir!“
Inga Lára Baldvinsdóttir, íbúi á Eyrarbakka og áhugakona um varðveislu sögulegra byggða.

Sveitarfélagið Árborg stóð fyrir opnum kynningarfundi um verkefnið „Verndarsvæði í byggð“ á Eyrarbakka á síðasta ári. Megininntak þess er að hluti af gömlu byggðinni á Eyrarbakka verði viðurkennt sem eitt af svonefndum verndarsvæðum í byggð. Með því yrði fest enn frekar í sessi verndun eldri byggðarinnar á Eyrarbakka sem nýtur hverfisverndar samkvæmt aðalskipulagi.

Á fundinum var því lýst yfir, af þáverandi formanni skipulags- og byggingarnefndar Sveitarfélagsins Árborgar, að nefndin vandaði sig alveg sérstaklega við úthlutun byggingarleyfa fyrir nýbyggingar á því svæði sem nú nyti hverfisverndar á Eyrarbakka. Í því sambandi var tiltekið að umsækjendur um byggingu á nýjum bílskúr hefðu verið beðnir um að láta breyta fyrirliggjandi teikningu af honum til að húsið félli betur að umhverfi sínu. Óskað hefði verið eftir því að húsið yrði niðurgrafið sem liður að þessu markmiði. Þessi yfirlýsing er eitt af því eftirminnilegra sem fram kom á fundinum og gaf væntingar um að fólk væri meðvitað um hlutverk sitt.

Umræddur bílskúr er nú risinn. Til að unnt væri að byggja hann var gömlum hlöðnum grjótgörðum rutt í burtu, en þeir hafa verið friðaðir og til þess hefur þá væntanlega verið fengin heimild frá minjaverði Suðurlands. Ekki verður séð að bílskúrinn sé neitt niðurgrafinn nema síður sé. Vægt til orða tekið þá fellur hann alls ekki að umhverfi sínu enda er hann mörgum númerum of stór. Mér er reyndar til efs að bílskúr af þessari stærð hefði verið leyfður í grónum hverfum í öðrum byggðarkjörnum Árborgar þar með talið Selfossi.

Það sem er búið er búið og því fáum við ekki breytt. Hins vegar vekur þetta upp margar spurningar um hæfi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar og yfirvalda á því sviði til að standa vörð um hverfisvernd gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka. Því miður ekki í fyrsta skipti.

Fyrir þá sem telja mikilvægt að varðveita sérkenni gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka, ekki aðeins fyrir húsavernd á Eyrarbakka heldur fyrir minjavernd í landinu öllu eru skipulagsslys af þessu tagi áfall.

Ekki aðeins skipulags- og byggingarnefnd, heldur einnig bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar, er mikill vandi á höndum að bera ábyrgð á þessu sviði. Ljóst er að eitthvað skortir upp á þekkingu og skilning á því hvað hverfisvernd felur í sér og hvernig beri að framfylgja henni. Hér þarf greinilega að finna sérlausnir. Lausnin gæti verið fólgin í því að setja sérstaka byggingarnefnd yfir þann hluta þorpsins á Eyrarbakka sem varinn er hverfisvernd. Alla vega hljótum við íbúarnir sem trúum því að fara eigi eftir gildandi aðalskipulagi að vænta þess að yfirvöldin vandi betur til verka en hér hefur orðið.