1 C
Selfoss
Home Fréttir Nýr miðbær – ný hugsun

Nýr miðbær – ný hugsun

0
Nýr miðbær – ný hugsun
Margrét Blöndal

Ég heyrði fyrst af hugmyndum um nýjan miðbæ á Selfossi árið 2015. Þá var ég að vinna þætti um Suðurland fyrir N4 og varð strax yfir mig hrifin. Vá! Hvað mér fannst þetta flottar hugmyndir. Því miður var ekki tímabært að fjalla um verkefnið þá en síðan hef ég fylgst lauslega með gangi mála. Í vor stóðum við hjónin frammi fyrir að velja okkur framtíðarstað til að búa á. Það er ekkert launungarmál við erum bæði skotin í Suðurlandinu og því horfðum við í þá átt. Selfoss varð fyrir valinu og þessar hugmyndir um nýjan miðbæ höfðu mikil áhrif á þá ákvörðun. Hugmyndirnar eru spennandi og bera með sér nýja hugsun. Þessi nýi miðbær kallar á fjölbreytilegt mannlíf. Götumarkaði, tónleika, jólaævintýri, sögustundir og alls kyns viðburði. Bæði góðu veðri og minna góðu. Í mínum huga eru íbúar Árborgar ( við nýbúarnir með taldir ) heppnir að hafa tækifæri til að skapa svona fallegan miðbæ sem tónar vel við svo margt sem fyrir er; Tryggvaskála, Kaffi Krús svo ekki sé nú minnst á fallega gamla Landsbankahúsið sem var flutt frá Búðardal á sínum tíma. Sem betur fer lenti það í góðum höndum og var gert upp. Í þessum nýja miðbæ er gert ráð fyrir að endurgera hús sem eitt sinn voru prýði sinna heimabæja. Sum þessarar húsa eru Árnesingar ef svo má segja, önnur koma lengra að. Friðriksgáfa er úr Hörgárdalnum og Hótel Akureyri, sem gert er ráð fyrir í öðrum áfanga er auðvitað Akureyringur svo ég hampi nú Norðlendingum sérstaklega. Það er rétt að taka það fram að ég er ekki tengd nokkrum stjórnmálaflokki, hvorki í Árborg né annarsstaðar og ekki maðurinn minn, Guðmundur Óli Gunnarsson heldur. Ég hef engra hagsmuna að gæta nema jú þeim að langa til búa í fallegum bæ. Og ég hef þá trú að falleg hús, gömul og ný geti orðið eitt af einkennum Árborgar. Einkenni sem er auðvelt að vera stoltur af. Það er frábært að geta fengið að kjósa um þessar tillögur. Við eigum að skiptast á skoðunum og það er í mínum huga ótækt að nenna ekki að hafa skoðanir á því samfélagi sem maður býr í. Tökum afstöðu og mætum og kjósum. Ég held að við Akureyringarnir, ég og Hótel Akureyri eigum góða daga í vændum og treysti því að kosningin fari vel þann 18. ágúst. Mér hefur verið sagt að Árnesingar séu einstaklega víðsýnir enda vanir að sjá til allra átta.

X „hlynntur“

Margrét Blöndal fjölmiðlakona og nýbúi.