Englar og menn – tónlistarhátíð Strandarkirkju

Valgeir Guðjónsson og Vigdís Vala Valgeirsdóttir

„Sunnan yfir sæinn breiða“ er yfirskrift næstu tónleika í tónlistarhátíðinni Englar og menn í Strandarkirkju. Næstu tónleikar eru 29. júlí kl: 14. Dagskrá tónleikanna er ekki af verri endanum. Feðginin Valgeir Guðjónsson og Vigdís Vala leiða saman hesta sína að þessu sinni. Þau munu flytja saman þekkt og minna þekkt lög úr tón- og textasmiðjum sínum. Lögin og umfjöllunarefni þeirra mun spanna breiðan boga eins og títt er hjá englum og mönnum, þar sem blandast saman andakt, æðruleysi og glaðværð.

Valgeir er flestur kunnur fyrir lög sín og texta. Hermt er að margt þenkjadi fólk og flest greindari húsdýr séu með á nótunum. Verkin spanna víðan völl og hafa hljómað í eyrum þjóðarinnar í 48 ár.

Vigdís vala er 25 ára gömul. Hún hóf ung að semja lög og ljóð. Þegar hún var 18 ára færði hún föður sínum lagið Hýjalín í sextugsafmælisgjöf. Lagið flutti hún fyrir fullu húsi í Eldborgarsal Hörpu. Nú um stundir leggur Vigdís gjörva hönd á margt. Hún sinnir tónsmíðum, textagerð og kemur fram ýmist ein og sér eða með föður sínum. Hún stundar einnig nám á doktorsstigi í rannsóknarsálfræði.

Tónlistarhátíðin hefur farið frábærlega vel af stað og fullt hús hefur verið á öllum tónleikum. Viðtökur tónleikagesta hafa einni verið afar góðar. Hátíðin er lengri í ár en undanfarin ár og stendur nú frá 1. júlí til 12. ágúst.

Strandakirkja er mörgum kunn sem þekktasta áheitakirkja landsins. Þar þykir vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar sem ljósengillinn birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingarskyni.Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni.

Það er fleira sem er einstakt við kirkjuna. Í henni er afar fallegur hljómburður og helgi sem skapar hlýja stemmningu og nálægð. Fjölbreytt efnisval flytjenda tekur mið af sögu staðarins og anda. Þá er þema hátíðarinnar, englar og menn, land, náttúra, trú og saga þar sem þjóðlög, einsöngslög og dúettar, ásamt innlendum og erlendum trúarljóðum og klassískum verkum hljóma.

Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Björg Þórhallsdóttir, sópransöngkona. Hátíðin er styrkt af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga og Strandarkirkjunefnd

Þeir sem hafa áhuga á tónleikunum og hátíðinni geta kynnt sér hana betur á Facebooksíðu verkefnisins Englar og menn – Tónlistarhátíð Strandarkirkju.