-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Nýr meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Hveragerði?

Nýr meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Hveragerði?

0
Nýr meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Hveragerði?

Nýverið gerðu Frjálsir með Framsókn samkomulag við meirihluta Sjálfstæðisflokksins og tryggðu sér þannig fjögur nefndarsæti af þeim átta sem tilheyra minnihluta bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar. Báðir flokkarnir gera mikið úr því að þetta hafi verið til að tryggja að raddir allra kjörinna fulltrúa heyrist í nefndum bæjarins og kalla þetta lýðræði. Það sem þau hafa sleppt að nefna er að á sama tíma og Framsókn tók ákvörðun um að vinna með meirihlutanum var flokkurinn enn í samningaviðræðum við Okkar Hveragerði um skiptingu nefndarsætanna án þess að upplýsa um að þau væru búin að gera samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn. Það geta ekki talist traust eða fagleg vinnubrögð af hálfu Framsóknar.

Skipting nefndarsæta
Í Hveragerði eru fjórar fastanefndir og í hverri þeirra sitja fimm pólitískt skipaðir fulltrúar. Meirihluti bæjarstjórnar (Sjálfstæðisflokkurinn) skipar þrjá aðila í hverja nefnd til að fylgja eftir sínum áherslum og minnihlutinn skipar tvo fulltrúa í hverja þeirra. Okkar Hveragerði fékk þriðjung allra greiddra atkvæða í nýafstöðnum kosningum og tryggði sér þannig fjögur af nefndarsætum minnihlutans en semja þarf um skiptingu hinna fjögurra sætanna. Ef ekki næst samkomulag gera sveitarstjórnarlög ráð fyrir að hlutkesti á milli allra flokka í bæjarstjórn ráði því hvar fimmta nefndarsætið í hverri nefnd lendir.

Aðeins eitt nefndarsæti
Í ljósi mikils muns á kjörfylgi Okkar Hveragerðis (33%) og Framsóknar (14,5%) fór Okkar Hveragerði fram á að fá eitt af þessum fjórum nefndarsætum sem þurfti að semja um. Það hefði þýtt að Framsókn hefði átt kjörinn fulltrúa í þremur nefndum en áheyrnarfulltrúa í þeirri fjórðu. Þessu hafnaði Framsóknarflokkurinn og taldi eðlilegt að þeir 215 manns sem kusu flokkinn hefðu jafnmarga fulltrúa í nefndum og þeir 489 sem kusu Okkar Hveragerði. Framsókn vildi því láta reyna á hlutkesti sem gæti orðið til þess að meirihluti Sjálfstæðisflokksins fengi fleiri fulltrúa í hverri nefnd í stað þess að vinna með Okkar Hveragerði í að efla minnihlutann og skipta þessum fjórum nefndarsætum í takt við kjörfylgi.

Sátu á upplýsingum
Í samningaviðræðum við Framsókn lagði Okkar Hveragerði til við Framsókn að hlutkestið yrði aðeins á milli þessara tveggja flokka. Á meðan beðið var eftir svari fréttist á skotspónum að Framsókn hefði gert samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn nokkrum dögum áður og þannig tryggt sér þessi fjögur nefndarsæti. Þetta gerði Framsókn án þess að upplýsa Okkar Hveragerði um ákvörðun sína og slíta viðræðunum eins og eðlilegt hefði verið að gera.

Er Framsókn í meirihluta næstu fjögur árin?
Með samningi Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins um nefndaskipan virðist nýr meirihluti hafa vera myndaður í Hveragerði. Því til stuðnings má nefna að á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar kaus Framsókn með tillögu Sjálfstæðisflokksins að ráða pólitískt kjörinn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem bæjarstjóra, þvert á kosningaloforð sitt um faglega ráðinn bæjarstjóra.

Öflugt aðhald frá Okkar Hveragerði
Með meirihlutasamstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins er ljóst að Okkar Hveragerði verður eini flokkurinn í minnihluta í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar næstu fjögur árin. Okkar Hveragerði ætlar að veita meirihlutanum öflugt aðhald, sjá til þess að íbúar fái upplýsingar um rekstur bæjarins og að þeir taki þátt í stjórnun hans.

 

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir
Friðrik Örn Emilsson
Sigrún Árnadóttir