6.7 C
Selfoss
Home Fréttir Bifreið kastaðist á umferðarljós á Austurvegi

Bifreið kastaðist á umferðarljós á Austurvegi

0
Bifreið kastaðist á umferðarljós á Austurvegi

Aðfaranótt laugardagsins 9. júní varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Austurvegar og Reynivalla á Selfossi. Önnur bifreiðin kastaðist á umferðarljós við gangbraut á Austurvegi og skemmdi þau. Meiðsl aðila eru ekki talin alvarleg. Um kvöldmat kvöldið áður varð einnig árekstur á Austurvegi þegar bifreið var ekið út frá Skalla inn á Austurveginn í veg fyrir bifreið sem ekið var austur Austurveg fram með bifreið sem dró hjólhýsi og hugðist beygja til hægri inn á þetta sama stæði við Skalla. Ekki urðu alvarleg meiðsl á fólki.

Níu slys voru tilkynnt til lögreglu á Suðurlandi í liðinni viku. Beinbrot hlutust í þremur þeirra. Þann 1. júní sl. féll stúlka fædd 2012 á leikvelli á Selfossi og brotnaði á báðum höndum við það. Þann 5. júní féll maður af þaki byggingar í Hveragerði og brotnaði á fæti við það. Ökumaður mótorhjóls er talinn viðbeinsbrotinn eftir að hann féll á hjóli sínu við akstur við Skarfanes í Landsveit í gær. Þá sprakk gaskútur  í meðförum ferðamanns í Skaftafelli í fyrrakvöld. Ekki liggja fyrir upplýsingar um tildrög þess eða afleiðingar.

Í liðinni viku voru höfð afskipti af fimm ökumönnum sem ýmist voru grunaðir um að aka bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis eða fíkniefna eða hvoru tveggja í senn. Þrír þeirra voru á Selfossi að næturlagi nú um liðna helgi og svöruðu prófunum jákvætt bæði vegna áfengis og fíkniefna en einn í Hveragerði. Sá er grunaður um að hafa, þriðjudaginn 5. júní, ekið ölvaður á rafmagnskassa við heimili sitt og valdið þannig tjóni á kassanum og einnig á runnagróðri sem á vegi hans varð. Þennan sama dag var fimmti aðilinn handtekinn á Selfossi en sá er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna.

Alls var 31 ökumaður kærður fyrir að aka of hratt í umdæminu á þessu sama tímabili. Fjórir á þjóðvegi, einn á Mýrum, þrír á Skeiðarársandi, einn í Reynishverfisvegi við Vík þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km/klst og elefu á þjóðvegi 1 í Rangárvallasýslu og aðliggjandi vegum þar. Tólf voru síðan stöðvaðir í Árnessýslu á sama tíma, bæði á þjóðvegi 1 og í uppsveitum. Skráningarnúmer voru tekin af fjórum bifreiðum sem reyndust ótryggðar í umferðinni.

Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.