3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Ég hef enga bók lesið jafn oft og Pál Vilhjálmsson

Ég hef enga bók lesið jafn oft og Pál Vilhjálmsson

0
Ég hef enga bók lesið jafn oft og Pál Vilhjálmsson
Rebekka Þráinsdóttir.

Rebekka Þráinsdóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er Akureyringur og lukkulegur íbúi Eyrarbakka til 15 ára. Hún er aðjúnkt í rússnesku við Háskóla Íslands og kennir meðal annars rússnesku og rússneskar bókmenntir. Sambýlismaður hennar er Örlygur Benediktsson tónlistarmaður og kennari.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Þannig er að ég er mikið á ferðinni um þjóðvegi landsins og hlusta þá á útvarp eða hljóðbækur. Á síðustu dögum hef ég hlustað á tvær sögur eftir Arnald Indriðason, Petsamo og Reykjavíkurnætur. Langt er síðan ég las eða hlustaði á skáldsögu eftir Arnald og kippti þessum því með mér þegar ég sá þær á bókasafninu um daginn. Síðast las ég skáldsöguna Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur. Hún hafði verið sett fyrir í leshóp sem ég er í og ég ákvað að kaupa hana fyrir nokkuð langt flug um daginn og las hana í einum rykk. Að lestri loknum lokaði ég bókinni, setti ofan í tösku og sneri mér að öðru. Áttaði mig á því eftir nokkra daga að ég var sífellt að hugsa um þær Elínu, Ellen og Helen(u), glerhesta, gamla kassa, hús, hendur, gipsmyndir og ör.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Þessu er erfitt að svara en ég held ég geti fullyrt að ég myndi aldrei sjálfviljug velja mér eitthvað sem ég teldi vera vísindaskáldskap.

Lastu mikið sem barn?
Það var alltaf lesið fyrir okkur systur á kvöldin og það er eins og mig minni að þar hafi alls konar ævintýri skipað nokkuð stóran sess. Ég var áreiðanlega orðin átta eða níu ára þegar ég fór að lesa sjálfri mér til skemmtunar. Mín kynslóð tengist Múmínálfunum og ævintýrabókunum órjúfanlegum böndum, Astrid Lindgren, Guðrúnu Helgadóttur, Tinna og ýmsum mórölskum skandínavískum barna- og unglingabókum. Ég las hverja og eina einustu Nancy-bók og sá örugglega fyrir mér að ég myndi helst einbeita mér að því að leysa dularfull mál þegar stundir liðu fram. Uppáhaldsbókin mín var þó bókin um Pál Vilhjálmsson eftir Guðrúnu Helgadóttur. Hana fékk í jólagjöf þegar ég var 11 ára. Palli fylgdi mér langt fram á unglingsár í gegnum margar erfiðar stundir ekki síst ef myrkfælni sótti að eða almennur leiði. Enga bók hef ég lesið jafn oft og nýt þess nú að lesa hana fyrir frændur mína. Húmor, alvara og skemmtilegar sögur – ég bið ekki um meira.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Nú orðið tengist lestur minn einkum starfi mínu. Reyndar hef ég aldrei litið á mig sem mikinn lestrarhest en þegar horft er til baka er eiginlega furðulegt hvað maður hefur komist yfir að lesa. Árið 1996 uppgötvaði ég hljóðbókina. Ég bjó í Reykjavík og fór gjarnan gangandi í vinnuna og lét þá Gísla Halldórsson lesa fyrir mig Góða dátann Sveik. Enginn verður samur eftir slíka reynslu. Síðan þetta var hef ég hlustað á ógrynni hljóðbóka og þannig kynnst verkum sem ég hefði líklega ekki gefið mér tíma til að lesa til dæmis smotterí eins og Dalalíf, sem ég hef hlustað á oftar en einu sinni. Ég hlusta gjarnan á sakamálasögur en er ekki viss um að ég myndi nenna að lesa þær.

Áttu þér uppáhalds rithöfunda?
Áður fyrr tók maður gjarnan á sig rögg las margar bækur í röð eftir sömu höfundana, íslenska og erlenda. Í gegnum tíðina hef ég lesið eða hlustað á hverja einustu skáldsögu sem Einar Kárason hefur sent frá sér nema Passísálmana og þá nýjustu, og sumar oftar einu sinni og oftar en tvisvar – hann getur verið svo fyndinn hann Einar. Svo get ég nefnt rússneska höfunda eins og Anton Tsjekhov, Ísaak Babel og Ljúdmílu Úlítskaju. Þetta eru mannvinir sem tekst að skrifa fallega um fólk sem oftar en ekki er statt í lítt öfundsverðum aðstæðum.

Hefur bók rænt þig svefni?
Ef átt er við hvort ég vaki á nóttunni yfir bóklestri, þá er svarið nei. Hins vegar hafa skáldsögur sótt á mann lengi að lestri loknum. Saga kvennanna og sérstakur frásagnarmátinn í Meðan nóttin líður eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur hafði mikil áhrif á mig. Þríleikur Ólafs Gunnarssonar, Tröllakirkja, Blóðakur og Vetraferðin, gekk ansi nærri mér, það sauð nánast á mér á köflum. Mig minnir meira að segja að ég hafi hringt í höfundinn til að spyrja hvernig hann færi að því að skapa svona ógeðfelldar persónur. Það var merkileg reynsla að lesa sögur grænlenska höfundarins Sörine Steenholdt í Zombílandi. Lesandinn finnur hvergi skjól nema í væntumþykju höfundarins og það sama má segja um sögur rússneska höfundarins Ljúdmílu Petrúshevskaju en fyrir áhugasama má benda á að til er íslensk þýðing á smásagnasafni hennar Ódauðlegt ást.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ætli ég væri ekki með króníska ritstíflu. Kular af degi eftir Kristínu Marju Baldvinsdóttur er þó bók sem ég gæti sætt mig við að hafa skrifað.

Mynd:

(Rebekka Þráninsdóttir)