0.6 C
Selfoss
Home Fréttir Gerum gott samfélag enn betra

Gerum gott samfélag enn betra

0
Gerum gott samfélag enn betra
Guri Hilstad Ólason.

Óhætt er að fullyrða að í Rangárþingi eystra er blómlegt samfélag í miklum uppvexti, íbúum í þorpinu fjölgar og blómleg uppbygging er í dreifbýli. Ungt fólk velur í vaxandi mæli að koma og setjast að enda er hér gott að vera.

Það sem ekki síst dregur að unga fólkið þegar kemur að því að velja sér stað til að setjast niður til framtíðarbúsetu er skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarf. Í Rangárþingi eystra er vel hlúið að þessum málum og sveitarfélagið hvetur til og styður við að samstarf og samfella sé í öllu skóla- og tómstundastarfi. Sameiginleg skólastefna sveitarfélagsins um grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla sem gefin var út og samþykkt á kjörtímabilinu er einn af þeim þáttum sem styðja við og virkja samstarfið.

Í Rangárþingi eystra er skólastarf í fremstu röð. Nýlegt ytra mat á starfi Hvolsskóla er til mikillar fyrirmyndar og staðfestir það sem við íbúar vitum, að þar er unnið frábært starf og er skólinn mjög vel mannaður af fagfólki. Skólinn hefur einnig vakið athygli í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum fyrir ýmis umhverfis- og vísindaverkefni s.s. jöklamælingar á Sólheimasandi og samstarf við Kötlu Geopark.

Á Leikskólanum Örk, 5 deilda leikskóla sem tekur inn börn frá 12 mánaða aldri, hefur verið mikill vöxtur og er ánægjulegt að segja frá því að í samræmi við það hefur fagfólki fjölgað mikið á síðustu árum. Sveitarfélagið er afar þakklátt fyrir að fá að njóta þessa dýrmæta mannauðs og hefur til að mynda sýnt það með því að styðja við það starfsfólk sem vill auka menntun sína á sviðinu.

Húsnæði leikskólans er komið að þolmörkum og er næsta stóra verkefni sveitarfélagsins bygging nýs leikskóla. Í því sambandi eru hugmyndir uppi um staðsetningu nýs húsnæðis og hönnun skóla- og íþróttasvæðis sem styðja enn frekar við samstarf og nýtingu mannvirkja.

Listi Framsóknar og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra vill áfram styðja við gott skóla- og æskulýðsstarf og stefnir að því að á næsta kjörtímabili verði unnið að og lokið við hönnun nýs leikskólahúsnæðis og hafist handa við byggingu.

 

Guri Hilstad Ólason, 4. sæti á lista Framsóknar og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra.
Arnheiður Dögg Einarsdóttir, 10. sæti á lista Framsóknar og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra.