-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Barnvænt samfélag

Barnvænt samfélag

0
Barnvænt samfélag
Kolbrún Haraldsdóttir.

H-listann í Hrunamannahreppi skipa öflugir einstaklingar með fjölbreytta reynslu og þekkingu. Listinn hefur komið mörgum mikilvægum stefnumálum í verk á síðasta kjörtímabili og viljum við vinna áfram að því að gera Hrunamannahrepp að enn meira aðlaðandi búsetukosti, jafnt fyrir unga sem aldna.

Allir málaflokkar eru mikilvægir en mig langar að hnykkja á helstu áherslumálum okkar í fræðslu- og æskulýðsmálum. Í Hrunamannahreppi eru starfandi öflugar menntastofnanir sem við viljum styrkja og efla enn frekar. Í grunnskólanum starfar metnaðarfullt starfsfólk og er skólinn leiðandi á ýmsum sviðum náms og kennslu. Í leikskólanum fer fram mikilvægt starf við eflingu þroska barna í leik og starfi. Rannsóknir síðustu ára hafa leitt í ljós að á leikskólaárunum er lagður mikilvægur grunnur að þroska máls og læsis hjá börnum sem býr þau meðal annars undir lestrarnám seinna meir. Síðasta ár leikskóla er í þessu sambandi mjög mikilvægt og viljum við því að vistun elsta árgangs í leikskóla verði gjaldfrjáls og tryggja með því skólagöngu allra barna óháð aðstæðum heima fyrir.

Börnin okkar eru það mikilvægasta í lífinu og viljum við öll hlúa sem best að þeim í einu og öllu. Eitt af stefnumálum H-listans er að Hrunamannahreppur hefji vinnu við innleiðingarferli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og verða með því eitt af fyrstu sveitarfélögum á landinu til að innleiða sáttmálann formlega. Verkefnið kallast Barnvæn sveitarfélög, en innleiðingarferlið tekur tvö ár og skiptist í átta skref sem sveitarfélagið stígur með það að markmiði að uppfylla og virða réttindi barna. Innleiðingin þýðir að sveitarfélagið samþykkir að nota sáttmálann sem viðmið í störfum sínum og að forsendur hans gangi sem rauður þráður í gegnum starfsemi þess. Starfsmenn og sveitarstjórnarmenn skoða þá verk- og ákvarðanaferla með sáttmálann að leiðarljósi og nýta hann þannig sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna. Vil ég nota tækifærið og hvetja önnur sveitarfélög til að skoða þetta verkefni í þágu barna.

 

Kolbrún Haraldsdóttir, skipar 3. sæti H-listans í Hrunamannahreppi.