9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Hvar er framtíðarsýnin í skipulagsmálum í Árborg?

Hvar er framtíðarsýnin í skipulagsmálum í Árborg?

0
Hvar er framtíðarsýnin í skipulagsmálum í Árborg?
Sólveig Þorvaldsdóttir.

Skipulagsmál er skemmtilegur málaflokkur. Þar er hægt að láta hugann reika og láta sér dreyma um framtíðina. Hann tengir saman aðra málaflokka í eina framtíðarsýn, svo sem samgöngu, atvinnu-, skóla- og umhverfismál.

Sveitarfélaginu Árborg skortir slíka heildræna framtíðarsýn. Kosningarnar 2018 snúast m.a. um hvort við ætlum að halda áfram í þeim hjólförum sem sveitarfélagið hefur verið í varðandi skipulagsmál, sem er nokkurs konar bútasaumur, eða hvort við ætlum að setja meiri kraft í málaflokkinn og búa til framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið allt. Skipulag innviða þarf ávallt að vera skrefi á undan þörfinni og við eigum einnig að hugsa út fyrir eigin ranna. X-B leggur áherslu á að stórbæta vinnubrögð í skipulagsmálum. X-B vill að:

  • Sunnlendingar vinni saman að uppgangi þessa frábæra svæðis sem suðurland er.
  • Unnið verði með nágrannasveitarfélögum í þeim tilgangi að kortleggja og laða að atvinnustarfsemi á svæðinu.
  • Útivistarskipulag verði gert með allt sveitarfélagið í hug, sem unnið er með hagsmunaaðilum, bæði íbúum, ferðaþjónustuaðilum og þeim sem láta sig lýðheilsu varða.
  • Að hugað verði strax að skipulagi við nýja brúarstæðið til að gefa okkur góðan tíma.

Skipulagsmál kalla á þátttöku íbúa. Vanda þarf til verka til að tryggja að sátt náist um ákvarðanir. Sátt þýðir að öll sjónarmið hafa verið tekin til greina, rökrædd á opinberum vettvangi, að lokaniðurstöður sýna hvernig á þeim var tekið, og að vilji meirihluta sé skýr. Skipulagið fyrir nýja miðbæinn hefur reynst núverandi sveitarstjórn erfitt. Nú er hópur íbúa búin að knýja fram rétt sinn til að fram fari íbúakosning, gegn vilja núverandi meirihluta bæjarstjórnar sem ætlaði sér ekki að hafa kosningar. X-B vill að:

  • Verkferlar verði gerðir sem festa í sessi samtal við íbúa varðandi skipulag og tryggja þannig íbúalýðræði.

 

Sólveig Þorvaldsdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknar og óháðra í Svf. Árborg.