7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Valdið til fólksins

Valdið til fólksins

0
Valdið til fólksins
Sigrún Árnadóttir.

Í orðabók er hugtakið lýðræði skilgreint sem stjórnarfar sem almenningur getur með kosningum haft úrslitavald í stjórnarfarsefnum og að einstaklingar hafi rétt og aðstöðu til að láta í ljós vilja sinn og hafa áhrif á öll samfélagsleg málefni. Hvernig geta sveitarfélög tryggt það að lýðræðisleg vinnubrögð eigi sér stað? Hvernig geta íbúar haft áhrif í sinni heimabyggð?

Gagnsæ stjórnsýsla
Jú, fyrir það fyrsta verða íbúar að fá upplýsingar um gang mála. Upplýsingarnar þurfa að vera aðgengilegar, skiljanlegar og hlutlægar. Til þess þarf að vera opin, gagnsæ stjórnsýsla, allt uppi á borðum, hvort sem um er að ræða bókhald, skipulag eða ákvarðanataka bæjaryfirvalda.

Bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði vill að ákvarðanataka bæjaryfirvalda í Hveragerði verði gagnsæ og að bókhald bæjarins verði opnað. Í skýrslu sem samþykkt var á vorþingi Sveitarstjórnarþings Evrópuráðs árið 2017 kemur fram að opnun gagna geti t.d. bætt opinbera þjónustu, stuðlað að meiri pólitískri og samfélagslegri þátttöku íbúa og að margvíslegum félagslegum, menningarlegum, lýðræðislegum og umhverfislegum nýjungum.

Þátttaka íbúa
Samráð við íbúa þarf að vera virkt, stjórnendur þurfa að fá viðbrögð frá íbúum og rökræður þurfa að eiga sér stað. Íbúar þurfa að finna að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra, að þeir hafi tækifæri til að hafa áhrif frá fyrsta stigi máls allt til lokameðferðar. Til þess að grundvöllur til þeirrar vinnu skapist þarf að ríkja gagnkvæmur trúnaður og ekki síður gagnkvæmt traust á milli íbúa og stjórnsýslu.

Okkar Hveragerði vill auðvelda íbúum þátttöku við stefnumörkun og ákvarðanir í málefnum bæjarins með virku samráði t.d. í gegnum vef bæjarins og með meiri upplýsingamiðlun. Þar sjáum við fyrir okkur að stofnuð verði íbúagátt eins og gert hefur verið í fjölmörgum sveitarfélögum og reynst vel.

Okkar Hveragerði
Okkar Hveragerði er óháð framboð, hópur fólks sem hefur áhuga á bæjarmálum, velferð íbúa Hveragerðis og hagsmunum sveitarfélagsins. Í hópnum eru íbúar með fjölbreyttan bakgrunn, menntun og reynslu. Við viljum gera góðan bæ enn betri og gefa bæjarbúum tækifæri til að eiga þátt í að móta bæjarfélagið okkar- okkar Hveragerði.

 

Sigrún Árnadóttir, 4. sæti á Okkar Hveragerði