5 C
Selfoss
Home Fréttir Áfram menntun!

Áfram menntun!

0
Áfram menntun!
Sigurður Ágúst Hreggviðsson.

Hér í Árborg búum við svo vel að hafa öll menntunarstig í sveitarfélaginu. Hér eru margir leikskólar og grunnskólar, við erum með einn framhaldsskóla, Háskóla- og fræðasetur ásamt Fræðslunetinu og Rannsóknasetri. Við erum því einkar vel sett til að bæta og þróa menntun á öllum skólastigum. Og við eigum að vera metnaðarfull. Hér er frábært fagfólk sem er með hugmyndir að því hvernig skuli staðið að menntun á 21. öldinni. Við eigum að nýta okkur það ásamt frjóum hugmyndum nemendanna sjálfra.

Við viljum að allir nemendur séu með sjálfstraust, að allir fái að dafna og líði vel. Það þarf að auka tækniþekkingu, gagnrýna hugsun og skapandi starf. Þetta er nauðsynlegt fyrir hina margumtöluðu 4. iðnbyltingu. Að auki má gera grein eins og lífsleikni hærra undir höfði svo unga fólkið okkar komi betur undirbúið út í lífið. Það er mjög áhugavert að fylgjast með nálgun Vallaskóla er varðar notkun tækni og snjalltækja í kennslu og þó það hafi hlotið einhverja gagnrýni, þá er það eitthvað til að læra af og sníða af vankanta og halda svo ótrauð áfram inn í framtíðina. Mikið hefur verið rætt um hina svokölluðu finnsku leiðina þar sem námsgreinum er blandað meira saman.

Við þurfum einnig að huga að skipulagi skólans og vellíðan nemenda og starfsfólks. Kvíði í báðum þessum hópum er óásættanlegur. Það á öllum að líða vel í vinnunni. Alvöru aðgerða er einnig þörf vegna eineltis, það hefur sýnt sig að það er ekki nóg að eiga fína áætlun. Rannsóknir hafa sýnt að lífklukka barna og unglinga geri þeim erfitt að hefja vinnudaginn fyrir kl. 9 á morgnana. Enn aðrir benda á að heimanám ætti að vera óþarft. Það sé slæm venja að kenna börnum að taka vinnuna með heim. Að lokum má benda að auka mætti aðgengi nemenda að náms- og starfsráðgjöf. Þetta og margt fleira er opið til umræðu og ákvarðana á opnum ibúafundi um menntamál þann 14. apríl nk. Þar bjóðum við alla velkomna til skrafs og ráðagerða.

Sigurður Ágúst Hreggviðsson, frambjóðandi í 3. sæti. Áfram Árborg.