2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Legháls krabbameinsleit hjá ljósmæðrum

Legháls krabbameinsleit hjá ljósmæðrum

0
Legháls krabbameinsleit hjá ljósmæðrum
Sigríður Pálsdóttir, ljósmóðir.

Orsök krabbameins í leghálsi getur verið af völdum Human Papilloma Virus (HPV) sem smitast með snertismiti á kynfærasvæði. Þetta smit er bæði einkennalaust og algengt, gera má ráð fyrir að allt fólk sem hefur stundað kynlíf hafi smitast af veirunni. Í flestum tilfellum hverfur vírusinn á hálfu til tveimur árum, en stundum þróast smitið yfir í frumubreytingar á leghálsi sem oftast ganga einnig til baka.

Einstaka sinnum þróast þó frumubreytingarnar yfir í krabbamein. Þetta ferli, ef það fer af stað, tekur mjög langan tíma, nokkur ár eða áratugi. Því fyrr sem meinið greinist, því auðveldara er að losna við það.

HPV smit og frumubreytingar eru algengari hjá yngri konum og því mikilvægt að þær mæti reglulega í skoðun. Konur fá bréf frá Krabbameinsfélaginu þegar kemur að skoðun, fyrsta bréfið kemur í kringum 23 ára afmælisdaginn, og berast þau síðan á þriggja ára fresti, eða þremur árum eftir síðustu sýnatöku. Finnist frumubreytingar er eftirlit þéttara næstu ár.

Ekki eru tekin sýni frá 3. til 4. mánuði meðgöngu þar til 2 mánuðum eftir fæðingu, þannig að berist bréf á þeim tíma þarf að bíða með að panta tíma.

Smit af HPV svo og ný greining leghálskrabbameins er sjaldgæfari með hækkandi aldri og eru konur eldri en 65 ára með eðlilegar fyrri skoðanir ekki boðaðar.

Á flestum heilsugæslustöðvum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, og á fæðingardeildinni, starfa ljósmæður sem taka leghálsstrok. Skoðunin kostar 4200 kr, og endurgreiða flest stéttarfélög þennan kostnað.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Sigríður Pálsdóttir, ljósmóðir