-0.9 C
Selfoss

Geta glæpir gert góðverk?

Vinsælast

Fá ef nokkur áhugaleikfélög á Íslandi eiga sér jafnmerka sögu og Leikfélag Selfoss. Sextíu ára nánast samfellt starf og rúmlega áttatíu uppfærslur hinna fjölbreytilegustu verka frá Kjarnorku og kvenhylli Agnars Þórðarsonar upphafsárið 1958 til Galdra-Lofts og Fjalla-Eyvindar og þaðan til Jeppa á Fjalli og Pilts og stúlku, Skálholts Guðmundar Kambans og Frænku Charleys, Skugga-Sveins og Atómstöðvarinnar, Hart í bak og Þið munið hann Jörund, Beðið eftir Godot og Mávsins eftir Chekov og Betri er þjófur í húsi en snuðra á þræði eftir Darió Fó, Bangsímon og Óvita Guðrúnar Helgadóttur og Dags vonar eftir Birgi Sigurðsson og Gaukshreiðursins, Sólarferðar Guðmundar Steinssonar og Birtings, Bróður míns Ljónshjarta og Kirsuberjagarðsins og á þessu afmælisleikári Vertu svona kona í leikstjórn Guðfinnu Gunnarsdóttur og nú beinist athyglin að Glæpum og góðverkum eftir Anton Delmar í leikgerð og leikstjórn Sigrúnar Valbergsdóttur. Öll þessi verk og miklu fleiri vitna um það orðspor og þá elju sem fer af starfsemi Leikfélags Selfoss. Við eigum að muna og gæta þess sem vel er gert því það frumkvæði og sú sköpun sem býr í Leikfélagi Selfoss er hverju bæjarfélagi ómetanlegur auður.

Fyrstu þrjátíu árin var Leikfélag Selfoss án fastrar aðstöðu. Um tíma í gamla Selfossbíó þar sem önnur starfsemi var rekin jafnhliða í húsinu. Og því fylgdu erfiðleikar. En frá árinu 1987 hefur félagið verið með nokkuð örugga aðstöðu í Iðnaðarmannahúsinu þar sem það var stofnað að frumkvæði kvenna árið 1958. Húsið sem nú gengur undir nafninu Litla leikhúsið býr yfir sínum sjarma og áru og þó það sé bæði lítið og þröngt rúmast í því stór sál. Veggspjöld á veggjum vitna um leiklistarsögu sem mikilvægt er að gerð sé góð og vönduð skil sem allra fyrst.

GLÆPIR OG GÓÐVERK er hefðbundinn gamanleikur en frekar gamaldags. Hann er staðfærður að sumu leyti og tilvísanir og setningar færðar til nútímans en að öðru leyti gerist hann í heimi sem stýrist af gömlum og kristnum gildum. Þrjár systur mynda kjarnann í verkinu og heita allar nöfnum sem vísa til hafsins. Alda er ráðríkust og hugsar og talar mest á meðan Unnur og Bára eru þolendur og stjórnast meira af gjörðum hennar. Líf þeirra snýst aðeins um góðverk eða hjálparstarf og hefur gert um langan tíma. Í byrjun verksins eru þær nýfluttar í hús látins bróður þeirra sem býr yfir leyndarmáli sem afhjúpast og gefur þeim vafasamt leyfi til að fremja glæp í nafni góðverkanna. Allt er þetta gert til að skapa árekstur á sviðinu og í huga áhorfandans og fá hann til að hlæja og skemmta sér en um leið að velta vöngum yfir því hvort hægt sé að réttlæta glæp ef hann er framinn í nafni góðverka?

Leikritið gerist allt á heimili systranna og inn á það rekast skoplegar og einfaldar persónur eins og kvenpresturinn Blíðfinna með reiðhjólahjálminn, skvísufrænkan Bergþóra og hinn tortryggni og æsti Njáll en þau ætla að ganga í hjónaband og flytjast af landi brott, lögreglumaðurinn Ólafur Íshólm sem er eiginlegt ísblóm og kemur ekki auga á neitt misjafnt, glæpamaðurinn Breyskur klæddur í kjólföt með pípuhatt sem leigir herbergi af systrunum og hefur öll ráð í hendi sér og afglapinn Árni sem er bæði drykkfelldur og mistækur.

Flestar þessara persóna eru prýðisvel túlkaðar með skýra textaframsögn og hreyfingar sem bera reyndum leikurum vitni. Auðvitað standa sumir framar en aðrir en um það er óþarfi að fjölyrða. Mest er um vert í sýningu af þessu tagi að ná fram fölskvalausri leikgleði sem skilar sér til áhorfenda og það tókst prýðisvel á frumsýningunni.

Að lokum má ekki gleyma fallega og skemmtilega sönghópnum sem birtist í byrjun og inn á milli atriða til að leggja út af verkinu. Textarnir eru skemmtileg frumsmíð leikstjórans Sigrúnar Valbergsdóttur sem stýrir þessari sýningu af öryggi, með yfirvegun og hægð. Allt kemst vel til skila án hurðaskella og hávaða en á hinn bóginn hefði mátt vera meira spunnið í lögin sem fylgdu hinum ágætu söngtextum. ALLIR Í LITLA LEIKHÚSIÐ.

Jón Özur Snorrason.

Random Image

Nýjar fréttir