1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Niðurgreiðslur á þjónustu dagforeldra í Árborg

Niðurgreiðslur á þjónustu dagforeldra í Árborg

0
Niðurgreiðslur á þjónustu dagforeldra í Árborg

Niðurgreiðslur Sveitarfélagsins Árborgar á þjónustu dagforeldra hækka úr 50.000 kr. í 65.000 kr. frá og með 1. mars 2018 miðað við 8 tíma vistun. Jafnframt verður dagforeldrum veittur stofnstyrkur að fjárhæð 100.000 kr. miðað við að dagforeldri sé með leyfilegan hámarksfjölda barna í gæslu.

Starfandi dagforeldrar, sem hafa starfað í meira en 8 mánuði samfellt, geta sótt um styrkinn 1. mars nk. og verður hann greiddur í eingreiðslu fyrir 1. apríl nk. Dagforeldrar sem eru með skemmri starfsaldur eða hefja störf á árinu 2018 geta sótt um styrkinn þegar umsókn um leyfi til að starfrækja daggæslu hefur verið samþykkt. Styrkurinn verður greiddur í tvennu lagi, 50.000 kr. þegar umsókn hefur verið samþykkt og starfsemi hafin og 50.000 kr. þegar dagforeldri hefur starfað samfellt í 8 mánuði.

Dagvistarplássum hjá dagforeldrum í Sveitarfélaginu Árborg hefur ekki fjölgað í takt við aukna eftirspurn sl. mánuði. Sveitarfélagið birti í byrjun janúar sl. auglýsingu þar sem áhugasamir voru hvattir til að gerast dagforeldrar, en án árangurs. Nokkur fjöldi barna er nú á biðlista hjá dagforeldrum eftir þjónustu. Vonast er til að framangreindar breytingar hvetji áhugasama aðila til að hefja störf sem dagforeldrar.