-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir 54% erlendra ferðmanna borða lambakjöt

54% erlendra ferðmanna borða lambakjöt

0
54% erlendra ferðmanna borða lambakjöt
Lambakjöt. Mynd: Iceland lamb.

Samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir markaðsstofuna Icelandic Lamb í nóvember og desember 2017, borðar rúmur helmingur erlendra ferðamanna íslenskt lambakjöt. 50% borða lambakjöt á veitingastöðum en 13% borða lambakjöt sem keypt er í búð. Nokkur skörun er á milli þessara hópa en samtals borða 54% þeirra erlendu ferðamanna sem koma til Íslands einhvern tíma lambakjöt í ferðinni. Líkurnar aukast eftir því sem þeir dvelja lengur á landinu.

Öflugt samstarf við veitingastaði og verslanir
Markaðsstofan Icelandic Lamb rekur öfluga markaðsherferð til að kynna íslenskar sauðfjárafurðir fyrir erlendum ferðamönnum. Hluti hennar er netherferð þar sem um myndböndum og öðru efni er dreift á samfélagsmiðlum. Icelandic Lamb er í samstarfi við um 110 veitingastaði og sérverslanir sem setja lambakjöt í öndvegi.

27% erlendra ferðamanna þekkir merkið
Öll markaðssetningin er undir sérstöku merki Icelandic Lamb. Gallup kannaði þekkingu erlendra ferðamanna á merkinu. Alls þekktu 27% svarenda merkið. Af þeim sögðust 48% hafa mjög jákvætt viðhorf til þess. 25% sögðust hafa nokkuð jákvætt viðhorf en 26% hvorki jákvætt né neikvætt viðhorf gagnvart merkinu.

Árangurinn kemur ánægjulega á óvart
Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Icelandic Lamb, segir þessar niðurstöður hafa komið ánægjulega á óvart. „Við fengum Gallup til að gera þessa könnun til að mæla árangurinn af okkar vinnu. Við vorum að vona að þeir sem þekktu merkið yrðu ekki færri en 10% ferðamanna. Að 27% skuli þekkja er framar öllum okkar vonum. Svo er líka sérstaklega ánægjulegt hversu jákvæðir ferðamennirnir eru gagnvart því. Þetta er mikil hvatning fyrir okkur að halda áfram og gera enn betur á næstu misserum.“