6.1 C
Selfoss

Nýir stjórnendur hjá Tónlistarskóla Árnesinga

Vinsælast

Stjórnendaskipti urðu hjá Tónlistarskóla Árnesinga núna um áramótin, þegar Róbert A. Darling fór á eftirlaun. Róbert var málmblásturs- og píanókennari við skólann frá 1983 og skólastjóri frá 2000 til 2017.

Við starfi skólastjóra tók Helga Sighvatsdóttir blokkflautukennari, sem kennt hefur við skólann frá 1995 og verið aðstoðarskólastjóri frá árinu 2000. Við starfi aðstoðarskólastjóra tók Jóhann I. Stefánsson málmblásturskennari, en hann hefur kennt við skólann frá 1988 og verið deildarstjóri blásaradeildar frá 2002.

Helga Sighvatsdóttir er fædd í Hafnarfirði árið 1962 og ólst upp í Biskupstungum. Hún hóf tónlistarnám hjá Lofti S. Loftssyni 10 ára gömul og lærði hjá honum á píanó og blokkflautu. Þá sótti hún einnig blokkflaututíma hjá Sigríði Pálmadóttur í Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Árið 1980 hóf hún nám í Blokkflautudeild Tónlistarskólans í Reykjavík hjá Camillu Söderberg og lauk blokkflautukennaraprófi þaðan vorið 1986.

Helga hefur starfað sem blokkflautukennari við ýmsa skóla frá 1983 s.s. Tónlistarskóla Seltjarnarness, Tónlistarskóla Garðabæjar, Kennaraháskóla Íslands, Tónlistarskólann á Húsavík og loks Tónmenntaskóla Reykjavíkur til 1999. Hún hefur kennt við Tónlistarskóla Árnesinga frá 1995, var ráðin aðstoðarskólastjóri í ágúst árið 2000 og tók við sem skólastjóri 1. janúar 2018.

Jóhann Ingvi Stefánsson er fæddur og uppalinn á Selfossi. Hann hóf nám í trompetleik um 11 ára aldur hjá Ásgeiri Sigurðssyni og síðar hjá Björgvini Þ. Valdimarssyni. Jóhann útskrifaðist úr blásarakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík 1992. Aðalkennari hans þar var Ásgeir H. Steingrímsson.

Jóhann hefur frá því hann lauk námi starfað við kennslu og hljóðfæraleik. Hann hefur kennt við ýmsa tónlistarskóla auk Tónlistarskóla Árnesinga t.d. Tónlistarskóla Garðabæjar, Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Skólahljómsveit Kópavogs.

Jóhann hefur leikið með ýmsum hljómsveitum og kammerhópum. Má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku óperuna, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Stórsveit Reykjavíkur, Caput hópinn o.fl. Jóhann kemur reglulega fram við ýmis tækifæri.

Jóhann hefur starfað við Tónlistarskóla Árnesinga meira og minna frá árinu 1988, hefur verið deildarstjóri blásaradeildar frá 2002 og tók við sem aðstoðarskólastjóri 1. janúar 2018.

Nýjar fréttir