1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Alltaf jafnspennt að opna jólabókina mína

Alltaf jafnspennt að opna jólabókina mína

Alltaf jafnspennt að opna jólabókina mína
Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir.

Lestrarhesturinn Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir er búsett í Reykjavík en alin upp í Flóanum fram að tíu ára aldri þegar hún fluttist á Selfoss með móður sinni og fjórum systkinum. Hún er stúdent frá FSu og bókmenntafræðingur frá Háskóla Íslands þar sem hún sérhæfði sig í mesópótamískum bókmenntum og vinnur nú að því að gefa út þýðingar á verkum þessa forna menningarheims af frummálunum, akkadísku og súmersku yfir á íslensku. Nú vinnur hún að þýðingu sinni á Lögbók Hammúrabís sem stendur til að gefa út á næsta ári.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Til dægradvalar er ég að endurlesa Illsku eftir Eirík Örn Nordahl þar sem að ég missti af uppsetningunni í Borgarleikhúsinu. Efni bókarinnar á ekki síður við í dag en þegar hún kom fyrst út enda glímir hún við margar mikilvægar spurningar um þjóðfélagið og samfélagið í heild sinni. Svo er ég alltaf með einhverjar fræðibækur við höndina. Síðustu mánuði hef ég einkum verið að lesa Before The Muses eftir Benjamin Foster sem er sýnisbók akkadískra bókmennta. Ég sæki mér innblástur í þetta verk enda stefni ég á að þýða ýmsa bókmenntatexta frá þessu tímabili í náinni framtíð og er verk Fosters bæði fræðandi og fallega þýtt.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég tek oftast skorpur þar sem ég les mjög mikið, þá oft fram á nótt, en of lítið inn á milli. Þó reyni ég að halda fræðibókalestrinum stöðugum en það er ekki alveg nóg til þess að göfga andann og því reyni ég af fremsta megni að lesa skáldverk og ljóðabækur inn á milli.

Hafa jólin áhrif á bóklestur þinn?
Síðan ég var lítil stelpa hef ég alltaf fengið að minnsta kosti eina bók í jólagjöf frá móðurafa mínum en hann starfaði sem bókbindari. Ég er alltaf jafnspennt að opna jólabókina mína og eyði ýmist aðfangadagskveldi eða jóladegi í lestur.

En hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég er mikill aðdáandi ljóðlistar og safna ljóðabókum, helst eftir íslenska höfunda. Einnig nýt ég þess að lesa bækur sem hafa mikla dýpt og hægt er að lesa á milli línanna. Ég vil ekki láta mata mig á upplýsingum, heldur opna fyrir hugleiðingar sem ég get síðan fylgt sjálf. Dæmi um slíka bók er Kantata eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur.

Áttu þér einhverja uppáhalds ljóðabók?
Eftirlætis ljóðabókin mín er án efa Leitin að upptökum Orinoco eftir Ara Trausta Guðmundsson. Verkið er ljúfsárt og kom mér algjörlega í opna skjöldu, hversu mikil viðkvæmni og fegurð leynist í verkinu. Ég les bókina reglulega og tárast enn í hvert sinn.

Býrðu yfir áhugaverðri lestrarminningu?
Mér er minnistætt þegar ég var á lestarferðalagi um Evrópu og var að lesa Thomas Mann í fyrsta sinn. Ég byrjaði á Dauða í Feneyjum og þar sem ég sat í lestinni, á svipuðum slóðum og sögusvið verksins, hreyfði sagan við mér á mjög djúpan hátt og átökin í sögunni fengu á einhvern hátt fyllri merkingu, ef til vill þar sem ég var sjálf í eins konar sjálfskipaðri útlegð, í leit að merkingu og fegurð lífsins.

Hefur einhver bók haft sérstaklega mikil áhrif á þig?
Ég las Kapalgátuna eftir Jostein Gaardner oftar en ég get talið sem barn. Verkið er margslungið og skerpir gagnrýna hugsun án þess að vanda um fyrir eða stífla ímyndunargleði barna og táninga sem eru markhópur verksins. Bókin fjallar á heimspekilegan hátt um lífið og tilveruna og leyfir lesandanum að draga sínar eigin ályktanir. Sem barn var þetta mikilvægur partur af tilfinningalegum þroska mínum og þróun sem hugsandi, gagnrýnin og virkur samfélagsþegn.

Að lokum Kolbrún er til líf án bóka?
Sjálfsagt er það til. Einstaklingar og heilu samfélögin hafa þrifist og þrífast enn án bóka. En hvað eru bækur? Bækur eru einfaldlega tæki til þess að skrá niður sögur, frásagnir, halda utan samfélög á einn hátt eða annan og koma fram alls konar samfélagslegum speglunum, viljandi eða óviljandi. Svo það er til líf án bóka en það er ekki til heimur án sagna og ímyndunarafls, hvernig sem viðkomandi samfélög kjósa eða hafa tök á að varðveita þann samfélagslega fjársjóð.