-0.5 C
Selfoss

Áhersla á grænmeti úr nærumhverfinu á Farmers Bistro, nýjum veitingastað á Flúðum

Vinsælast

Eftir u.þ.b. eins mánaðar prufukeyrslu var í liðinni viku haldin formleg opnun á veitingastaðnum Farmers Bistro en hann er staðsettur í fallegu umhverfi á Flúðum. Staðurinn er í eigu Georgs Ottóssonar og Emmu Ragnheiðar Marinósdóttur. Flúðasveppir og Flúða-Jörfi eru ræktunarfyrirtæki Georgs sem tengjast nýja veitingastaðnum.

Í Flúðasveppum eru ræktaðir lífrænir sveppir, hvítir matarsveppir og brúnir kastaníusveppir og hjá Flúða-Jörfa paprikur og tómatar í gróðurhúsum. Flúða-Jörfi er einnig með útirækt í Hvítárholti þar sem ræktað er blómkál, spergilkál, hvítkál, rauðkál, grænkál og gulrætur. Einnig eru ræktaðar ferskar kryddjurtir fyrir Farmers Bistro.

Georg segir að það sé ekki ný hugmynd að opna veitingastað í tengslum við ræktunina. Flúðir hafa í gegnum tíðina verið vinsæll áfangastaður fyrir innlenda og erlenda ferðamenn enda ríki þar mikil veðursæld. Farmers Bistro er því afar vel í sveit sett en segja má að Flúðir séu Mekka grænmetisræktunar á Íslandi.

„Þetta hefur svolítið vantað í flóruna hérna í Hrunamannahreppi. Ég er búinn að vera áratugi í grænmetis- og svepparækt og hef lengi haft þá skoðun að það þyrfti að kynna vöruna okkar hér. Þetta tengist því þannig að gera meira fyrir vöruna, kynna hana, ekki síst fyrir Íslendingum, sem við höfum verið svolítið dugleg við hérna hjá Flúðasveppum, þ.e. að taka á móti hópum. Þetta hefur verið vinsælt og alls konar félög sem hafa komið hérna, sérstaklega á vorin og haustin. Mér fannst tilvalið að taka skrefið núna til fulls. Við höfum fyrirmyndina svolítið hérna á Friðheimum, en við vinnum mikið saman, ég og Knútur og Helena. Það er kannski ástæða þess að maður tekur skrefið núna á þessum tíma að það gengur vel hjá þeim. Ég ætla að þetta muni ganga svipað. Við kynnum hérna sérstaklega sveppina, paprikurnar og útiræktað grænmeti, blómkál og spergilkál sem við sérhæfum okkur svolítið í. Það er vaxandi káltegund í neyslu á Íslandi. Svo erum við líka að auka gulrætur þannig að það er fjölbreytni í ræktun hjá okkur,“ segir Georg.

Farmers Bistro aðhyllist svokallaða „Slow Food“ hreyfingu sem er alþjóðleg og leggur áherslu á nýtingu hráefnis úr nærumhverfi. Með því er verið að efla vitund fólks um mikilvægi matarmenningar, þekkingar, hefða og landfræðilegan uppruna matvæla.

„Þetta er svona kynning á því sem við erum að gera og rækta. „Slow Food“ stendur í rauninni fyrir nokkur atriði sem mér finnst skipta máli eins og að menn viti hvaðan matvaran kemur. Ég hef verið að vinna með slagorðið „Þú veist hvaðan það kemur“ í gegnum Sölufélag garðyrkjumanna. Það hefur virkað ágætlega. Þó svo að Slow Food sé úr ensku getum við alveg tileinkað okkur hugmyndafræðina. Hún er t.d. að elda eins mikið og þú getur úr nærumhverfinu þ.e. því sem er framleitt hér í nágrenninu.“

Aðspurður hvernig staður Farmers Bistro sé segir Georg að þetta sé ekki bara sveppastaður heldur verði þar á boðstólum allt grænmeti. „Við leggjum náttúrulega áherslu á íslenskt grænmeti. Einnig að fólk kynnist þessu, bæði Íslendingar og ferðamenn sem fara hérna í gegn. Þetta er í megindráttum hugmyndafræðin á bak við staðinn. Við bjóða líka upp á einhverja veganrétti. Það er mikið grænmeti hjá veganfólki og við munum þannig nálgast þá hugmyndafræði líka. Okkar aðalsmerki er að kynna ræktun og við bjóðum við hópum upp á heimsókn í gróðurhús þar sem paprikuræktun er kynnt ásamt fræðslu um aðra ræktun Flúða-Jörfa og Flúðasveppa.“

Talið berst að Flúðum og því er nærtækt að spyrja af hverju svona mikil garðyrkja sé þar. „Það er í fyrsta lagi út af heita vatninu. Svo erum við ekki lengur að hita upp gróðurhúsin bara með heitu vatni heldur eru öll alvöru gróðurhús á Íslandi með lýsingu. Hún er umhverfisvæn og við erum náttúrulega hérna á góðum stað því það er stutt að flytja rafmagnið frá þessum stóru virkjunum nálægt okkur. Þetta gerir það m.a. að verkum að við erum ákjósanlegur staður. Það sem vekur alltaf athygli, sérstaklega útlendinga, er vatnið okkar. Við lítum á það sem sjálfsagðan hlut en sem ræktendur höfum kannski gleymt að tala um það. Við heyrum oft, alls staðar úr heiminum, hvað vatn er takmarkað. Ef eitthvað kemur upp á er alltaf spurning um vatnið og hvort manneskjan hafi nóg af því. Hérna erum við að vökva t.d. sveppina í gróðurhúsunum með drykkjarvatninu okkar. Þegar maður segir þetta við útlendingana segja þeir: „Þú er nú varla að segja okkur satt núna“. Þeir eru mjög hissa á þessu. Víða erlendis er algjörlega bannað að nota neysluvatn í svona ræktun. Þar er notað vatn sem er annaðhvort hreinsað eða blandað klór eða einhverju slíku. Þar er skylda að setja klór í það. Vatnið er þannig forréttindi okkar hér á Íslandi sem erum að rækta.“

Nýi veitingastaðurinn Farmer Bistro á Flúðum er opinn alla daga kl. 12–16.

Nýjar fréttir