8.9 C
Selfoss

Alveg magnað að koma og skoða bæinn

Vinsælast

Stærsta verkefni Sveitarfélagins Ölfuss í sumar er endurbætur á elsta hluta leikskólans en þar er ætlunin að koma fyrir tveimur nýjum deildum. Að sögn Gunnsteins R. Ómarssonar sveitarstjóra er þetta mikil búbót enda búið að fjölga heilmikið hjá sveitarfélaginu eins og annars staðar á Suðvesturhorninu. Upphaflega stóð til að taka deildirnar í notkun í haust en af því verður ekki. „Það verður ekki fyrr en kannski um áramótin og gæti meira að segja dregist eitthvað frameftir. Það er svolítið snúið með framkvæmdir núna í sambandi við iðnaðarmenn og fleira. Við urðum því að lengja aðeins í framkvæmdaferlinu. Þessu miðar samt vel,“ segir Gunnsteinn í samtali við Dagskrána.

Gunnsteinn R. Ómarsson sveitarstjóri Ölfuss.

Grettistak í ásýnd bæjarins
„Við erum líka búin að vera að lyfta grettistaki í ásýnd bæjarins. Þar höfum við verið með það að markmiði að bæta alla ásýnd, bæta við gróðri, laga götur, gangstéttir og kanta og þess háttar. Við höfum hvatt fólk til þess að sinna umhverfisþættinum líka. Það er alveg magnað að koma og skoða bæinn. Það er umtalað hvað ásýndin hefur lagast. Mörg hús sem þurftu andlitslyftingu hafa skipt um eigendur á síðustu misserum, tveimur árum kannski, og það er verið að taka mörg þeirra í gegn núna.“

Stækkun íþróttahússins
Af verklegum framkvæmdum nefnir Gunnsteinn að þau séu með áform um að stækka íþróttahúsið og séu með það í hönnunarferli núna. „Við ætlum að ná því helst fyrir Unglingalandsmót 2018. Ef við náum að bjóða út núna með haustinu þá gæti það náðst. Við vonum það ennþá alla vega. Það verður þá fimleikaaðstaða fyrst og fremst sem bætist við, en það býður líka upp á skemmtilega möguleika fyrir unglingalandsmótið. Svo eykur það auðvitað notkunargildið á húsinu fyrir íþróttastarfsemina.“

Nýtt flokkunar- og móttökusvæði
„Við eru líka með á dagskrá hjá okkur að hanna og byggja nýtt móttöku- og flokkunarsvæði. Það hefur líka dregist þó það sé alls ekki á dagskrá hjá okkur að láta það dragast. Aðstæðurnar hjá verktökum og iðnaðarmönnum eru bara þessar í dag. Svæðið sem er í notkun hjá okkur í dag er orðið heldur framorðið ef svo má að orði komast. Við erum búin að finna því staðsetningu núna. Fólk er svolítið hrætt við þessi svæði og þá aðallega ásýndarlega. Þetta verður vel úr garði gert og óþarfi að vera með einhverja hræðslu í sambandi við það. Þetta kemur til með að bæta flokkun og eykur skilvirkni með umhirðu á úrgangi.“

Margt að byggjast upp í kringum siglingarnar
Gunnsteinn segir að margt sem hafi verið að byggjast upp undanfarið í sveitarfélaginu. Hann segir að menn taki höfnina orðið sem sjálfgert verkefni núna eftir að siglingarnar hófust og bætir við að auðvitað sé það búið að vera stærsta verkefni þeirra síðustu árin. „Það er að byggjast margt skemmtilega upp í kringum það verkefni og þetta er að ganga mjög vel. Það eru miklar fyrirspurnir hjá okkur, sérstaklega um atvinnulóðir. Við vissum og höfðum að markmiðið að þetta myndi gerast. Við erum núna að vinna að skipulagi á hafnarsvæðinu. Við erum líka búin að taka í gagnið og í gegnum skipulag svæði aðeins vestan við Þorlákshöfn þar sem við horfum á að áhrifameiri iðnaður flytjist. Aðalhvatinn að því var flutningur fiskþurrkunarverksmiðjunni hjá Lýsi. Þar eru framkvæmdir komnar í gang. Við finnum fyrir áhuga þar líka. Á hafnarsvæðinu er meira svona hafnsækin þjónusta sem við horfum á, ekki eins landfrek og hitt. Það er áhugi fyrir því líka. Það verður okkar áhersluverkefni þ.e. að kynna svæðið fyrir fjárfestum og fyrirtækjum til uppbyggingar og þá sérstaklega atvinnutengdrar uppbyggingar.“

Nýtt íbúðahverfi í skipulagi
Aðspurður um íbúðalóðir segir hann að þar hafi líka farið út lóðir en að hann hefði samt viljað sjá meira byggt upp. „Það hefur ekki verið byggt á öllum lóðum sem við höfum úthlutað. Við erum með nýtt hverfi í skipulagi líka. Það er í auglýsingaferli. Þannig að við erum vel í stakk búin fyrir komandi framtíð. Það er mjög bjart fram undan. Lykilatriðið er náttúrulega að siglingaverkefnið, í samstafi við Smyril line, vaxi og dafni vel. Það er ekkert annað í spilunum en að það sé bara komið til að vera.“

Af öðrum verkefnum segir Gunnsteinn að það snúist svolítið í kringum Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður í Þorlákshöfn 2018 og að partur af því sé að taka allt umhverfi í gegn. Sveitarfélagið og íbúarnir hafi verið að taka sér taki í sambandi við það. „Við höfum líka verið að byggja svolítið upp íþróttaaðstöðuna og þá sérstaklega útiaðstöðuna og munum halda því áfram. Vonandi náum við að klára viðbygginguna við íþróttahúsið. Svo erum við að fara að setja nýja potta í sundlaugina til að bæta aðstöðuna fyrir íbúa og gesti. Það verður byrjað á því í haust.“

Mikill vöxtur í fiskeldi
Gunnsteinn minnist aðeins á fiskeldið og segir að það hafi verið mikill vöxtur í því í sveitarfélaginu. Búið sé að byggja stóra seiðaeldisstöð vestur á Bjargi eins og þau segja. Fyrirtæki sem heitir Laxar stendur stendur að því. Svo er verið að undirbúa og vinna að skipulagi á annarri fiskeldisstöð í gömlu námunni eða gryfjunni sem er á milli Ísþórs og Náttúru. „Það svæði er að byggjast upp í kringum fiskeldi alveg eins og stefnumörkun sveitarfélagsins gerði ráð fyrir. Einhverjum kann e.t.v. að finnast nóg um en öll þessi verkefni en þau eru samt af ólíkum toga. Þó þetta sé allt í fiskeldi er þetta samt að mörgu leyti ólíkt. Kannski væri helst hægt að bera Laxa og Ísþór saman. Það að þetta skuli vera af ólíkum toga er áhugavert líka,“ segir Gunnsteinn.

Nýjar fréttir