0.6 C
Selfoss
Home Fréttir Ef ég væri rithöfundur myndi ég skrifa fyrir börn 

Ef ég væri rithöfundur myndi ég skrifa fyrir börn 

0
Ef ég væri rithöfundur myndi ég skrifa fyrir börn 
Sigfríður Sigurgeirsdóttir

– segir lestrarhesturinn Sigfríður Sigurgeirsdóttir

Sigfríður Sigurgeirsdóttir

Sigfríður Sigurgeirsdóttir er kennari og lýðheilsufræðingur að mennt og búsett í Hveragerði.  „Ég hef kennt í grunnskóla í rúmlega 30 ár og fengið tækifæri til að vinna með börnum og leggja grunn að lestaráhuga þeirra. Ég er í miðjunni af sjö systkinum, fædd og uppalin í Hafnarfirði og telst því vera Gaflari í húð og hár. Foreldrar mínir lásu mikið og pabbi var mikill grúskari og sílesandi. Hann kunni til að mynda Íslendingasögurnar nánast utanbókar. Foreldrar mínir voru mér því góðar lestarfyrirmyndir.“

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Bókin sem ég er að lesa núna heitir Næturgalinn eftir Kristin Hannah. Þetta er söguleg skáldsaga sem fjallar um líf almennings og þá einkum kvenna í Frakklandi á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Þarna fáum við annað sjónarhorn en við eigum að venjast þegar fjallað er um þessa hræðilegu atburði. Það sem vakti áhuga minn á þessari bók er að hún er söguleg að nokkru leyti og það finnst mér alltaf vera heillandi.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Sögulegar skáldsögur eru í uppáhaldi hjá mér og það er einhvern veginn þannig að loknum lestri slíkra bóka að þá situr yfirleitt eftir samkennd með sögupersónunum og reynsla þeirra verður svo ljóslifandi. Þessar bækur eru að mínu mati mannbætandi. Slíkar bókmenntir vil ég lesa.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?

Þar sem ég vinn mikið hef ég þann sið að lesa á hverju kvöldi áður en ég sofna. Það er nú bara þannig að ef ég er með góða bók í höndum þá vel ég frekar að fara snemma í rúmið í stað þess að glápa á sjónvarpið. Þetta er góð tilfinning. Þegar ég er í fríi er það lestur góðra bóka og göngur sem eiga hug minn allan.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?

Ég á nokkrar en þær sem koma upp í hugann í augnablikinu eru bækurnar um Bróður minn ljónshjarta eftir Astrid Lindgren og Emil og Skundi eftir Guðmund Ólafsson. Þá hafa barnabækurnar hennar Guðrúnar Helgadóttur einnig heillað mig. Allar þessar bækur eiga það sameiginlegt að í þeim ríkir gleði og kátína yfir lífinu en jafnframt snerta þær viðkæman streng í hjartanu. Slíkar bókmenntir eigum við að bjóða börnum okkar og vanda þarf til verka þegar skrifaðar eru bækur handa börnum.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ef ég væri rithöfundur myndi ég skrifa fyrir börn. Þau bera gott skynbragð á góðar bókmenntir og gera jafnframt kröfur um góða atburðarás sem þarf að vera bæði lífleg og skemmtileg. Barnabókahöfundar þurfa að hafa þetta í huga. Það er mikilvægt að fá börn til að lesa sér til yndis og ánægju eins fljótt og hægt er. Þá eru meiri líkur á að þau temji sér góðar lestrarvenjur sem munu efla þau félagslega, andlega og námslega og styrkja þau á ýmsan hátt. Lestur góðra bóka opnar nýja heima og eykur víðsýni og þroska. Þessa vegna þurfa barnabókarithöfundar að leggja metnað í verkin sín.

Er einhver bók sem hefur haft sérstaklega mikil áhrif á þig?

Bækur Halldórs Laxness eiga sérstakan stað í hjarta mínu og þá helst Sjálfstætt fólk og Heimsljós. Þessar bækur snertu við mér og það eiga góðar bókmenntir að gera. Þetta eru bækur sem fá mig til að vilja lesa þær aftur og aftur. Þær geyma mikla sögu og eru svo ljóðrænar og margslugnar á sinn hnitmiðaða hátt. Þannig eiga góðar bókmenntir að vera.