9.5 C
Selfoss

Skráning hafin á Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði

Vinsælast

Undirbúningur gengur afar vel fyrir Landsmót UMFÍ 50+ sem fram fer í Hveragerði um Jónsmessuhelgina, að sögn Ómars Braga Stefánssonar, framkvæmdastjóra mótsins. Dagskráin er klár og búið að setja sérgreinastjóra yfir hverja grein.

Landsmót UMFÍ fyrir fimmtíu ára og eldri hafa verið haldin víðs vegar um landið síðan fyrsta mótið var haldið á Hvammstanga árið 2011. Mótið hefur stækkað og dafnað með hverju árinu og hefur keppendum fjölgað jafnt og þétt. Ómar Bragi býst við miklum fjölda á mótið nú í júní og hugsanlega metskráningum.

Ástæðan fyrir því segir Ómar Bragi vera nálægðina við höfuðborgarsvæðið, Selfoss og aðra þéttbýlisstaði. Til viðbótar er boðið upp á fleiri keppnisgreinar nú en áður. Margar greinar verða þar sem ættu að höfða til yngri keppenda.

„Við sjáum mikil tækifæri í 50+ mótunum. Fólk sem komið er yfir fimmtugt er miklu betur á sig komið en áður og meðvitað um gildi hreyfingar og heilbrigðra lífshátta,“ segir hann og bendir á að fólk á aldrinum 50-65 ára sé enn á fullu í sínu sporti, hjóli, hlaupi eða stundi golf. Í samræmi við það verði boðið upp á greinar við hæfi.

Á mótinu í Hveragerði verður hægt að keppa í fjölda greina, kúluvarpi, utanvegahlaupi, pútti fuglagreiningu, bridds, fuglagreiningu, boccía, strandblaki, pönnukökubakstri, golfi og stígvélakasti. Þetta er bara brot af greinunum sem í boði eru.

Keppandi á mótinu í Hveragerði greiðir eitt gjald og getur síðan keppt í eins mörgum greinum og hann vill. Hér er hlekkur á skráningasíðu mótsins: https://umfi.felog.is/

Nýjar fréttir