6.7 C
Selfoss

Umræður um íslenska grafík í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Í tengslum við sýninguna Heimkynni – Sigrid Valtingojer efnir Listasafn ASÍ til umræðna um íslenska grafík á morgun sunnudaginn 28. maí í Listasafni Árnesinga, en sýningin er sameiginlegt verkefni safnanna.

Elísabet Stefánsdóttir formaður félagsins Íslensk grafík flytur stuttan sögulegan inngang og í framhaldinu verða pallborðsumræður og vonandi spurningar frá gestum. Í pallborði munu verða auk Elísabetar, Aðalheiður Valgeirsdóttir sýningarstjóri sýningarinnar Heimkynni, Jóhann Ludwig Torfason myndlistarmaður og umsjónarmaður grafíkverkstæðisins í Listaháskóla Íslands, Leifur Ýmir Eyjólfsson myndlistarmaður og Ragneiður Jónsóttir myndlistarmaður. Umræðustjóri er Heiðar Kári Rannversson listfræðingur.

Félag með heitinu Íslensk grafík var fyrst stofnað 1954 en starfaði stutt. Það var síðan endurvakið 1969 í núverandi mynd og aðalhvatamaður að því var myndlistarmaðurinn Einar Hákonarson sem einnig reisti húsið sem nú hýsir Listasafn Árnesinga í Hveragerði. Það ásamt því að í húsinu eru til sýnis margverðlaunuð grafíkverk gefur gott tilefni til þess að kynna enn betur þessa grein myndlistar sem á sér langa sögu byggða á rótgrónum hefðum en einnig tilraunum og nýungum. Hvað er t.d. einkennandi fyrir hana nú í samanburði við blómatímann á áttunda áratugnum hér á landi? Í pallborði sitja valinkunnir myndlistarmenn á ólíkum aldri sem gjörþekkja fagið frá mismunandi sjónarhornum og geta veitt gestum dýrmætar upplýsingar.

Aðgangur að safninu og umræðunum er ókeypis og sýningartími núverandi sýninga, Heimkynni og Óþekkt hefur verið framlengdur til 18. júní. Safnið er opið alla daga kl. 12-18.

Nýjar fréttir