6.7 C
Selfoss

Borað eftir heitu vatni við Ölfusárbrú

Vinsælast

Selfossveitur vinna um þessar mundir að heitavatnsöflun fyrir Sveitarfélagið Árborg, en samið var við Ræktunarsambandið um borun á tveimur stöðum.

Annars vegar hefur jarðhitaleit staðið yfir á Langanesi við Ölfusárbrú, þar sem nú er verið að bora. Verkinu er ekki lokið, en stefnt er að því að fara niður á um 500 metra dýpi. Staðan verður síðan metin þegar því dýpi hefur verið náð og „holan fengið að jafna sig“, eins og það er kallað, en þá verða gerðar mælingar. „Það eru vísbendingar um að þarna megi finna heitt vatn, og hefur komið upp um 57 gráðu heitt vatn. Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um magn á þessari stundu, en það skýrist betur þegar holan verður mæld,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar.

Hins vegar hafa bormenn Ræktunarsambandsins verið að bora við Laugardæli, á núverandi vatnsöflunarsvæði Selfossveitna. Þar er verið að leitast við að ná heitu vatni upp úr jarðhitakerfi sem liggur neðar en það kerfi sem nú er verið að nýta. „Endanlegar niðurstöður borunar í Laugardælum liggja ekki fyrir þar sem verkinu er ekki lokið, en góðar horfur eru á að þar muni verða hægt að virkja talsvert magn af heitu vatni. Þetta eru mjög spennandi verkefni og við erum bjartsýn á að með þessum tveimur borholum verði unnt að bæta talsvert heitavatnsstöðuna,“ segir Ásta.

 

Nýjar fréttir