-1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Líknarmeðferð

Líknarmeðferð

0
Líknarmeðferð
Urður Ómarsdóttir, hjúkrunarfræðingur lyflækningadeild og bráðamóttöku HSU.

Líknarmeðferð (e. palliative care) er meðferðarform sem gerir ráð fyrir heildrænni nálgun á vandamál einstaklinga sem glíma við alvarlega eða langvinna sjúkdóma. Orðið líkn merkir að hjálpa, hjúkra og lina þjáningar en markmið líknarmeðferðar er að stuðla að bættri líðan og auknum lífsgæðum fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Það er gert með því að greina vandamálin snemma, veita viðeigandi meðferð við einkennum og tengja saman umönnun líkamlegra, sálfélagslegra og andlegra þátta. Einkenni er breyting á ástandi líkama eða sálar og er huglægt mat einstaklings á eigin heilsu og líðan. Algeng einkenni sem sjúklingar með alvarlega sjúkdóma glíma við eru til dæmis verkir, þreyta, andnauð, þunglyndi og kvíði. Meðferðin þarf að vera samþætt og einstaklingsmiðuð þar sem hugað er sérstaklega að persónulegum þörfum. Mikilvægt er að efla stuðningsnet í kringum sjúklinga og aðstandendur þeirra til að sjúklingurinn geti lifað eins virku lífi og hægt er miðað við aðstæður. Samskipti milli sjúklinga, aðstandenda og fagfólks þurfa að vera árangursrík til að mögulegt sé að veita viðeigandi þjónustu.

Í fyrri skilgreiningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) átti líknarmeðferð aðeins við þegar læknandi meðferð var hætt en með nýrri skilgreiningu frá árinu 2002 getur líknarmeðferð átt við allt frá því að einstaklingur greinist með alvarlegan sjúkdóm. Líknarmeðferð er þannig hægt að veita á sama tíma og læknandi meðferð fer fram en getur einnig staðið ein og sér. Hér á landi hefur hugtökunum líknarmeðferð og lífslokameðferð (e. end of life care) verið ruglað saman en lífslokameðferð er lokastig líknarmeðferðar sem felur í sér að læknandi meðferð er hætt og lífslok nálgast. Í líknarmeðferð er litið á dauðann sem eðlileg þáttaskil en meðferðin miðar að varðveislu lífs.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Urður Ómarsdóttir, hjúkrunarfræðingur lyflækningadeild og bráðamóttöku