3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Fæðingarþjónusta og jafnræði

Fæðingarþjónusta og jafnræði

0
Fæðingarþjónusta og jafnræði
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð. Ein leið væri til dæmis sú að breyta núverandi löggjöf um fæðingarorlof.

Löng bið
Verðandi foreldrar á landsbyggðinni sem búa fjarri fæðingarþjónustu eða/og búa við þær landfræðilegu aðstæður að samgöngur eru ótryggar, þurfa yfirleitt að fara að fara að heiman nokkru fyrir áætlaðan fæðingardag. Þetta á t.d. við um íbúa í Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði. Yfirleitt er miðað við 38. viku meðgöngu nema að um áhættumeðgöngu sé að ræða. Börnin koma þegar þeim hentar þannig að foreldrar geta lent í því að bíða fæðingar í allt að 4 vikur, fram að 42. viku en þá eru konur yfirleitt gangsettar.

Breytingar á lögum
Núverandi kerfi felur í sér óásættanlegan ójöfnuð á milli landshluta. Verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfa t.d. oft að hefja töku fæðingarorlofs fyrr, af ofangreindum ástæðum og þá dregst sá tími, þ.e. biðtíminn eftir barninu, frá orlofinu. Þannig að barn og foreldrar njóta styttri samveru þegar barnið kemur loksins í heiminn. Með því að breyta lögum um fæðingarorlof gætum við tryggt rétt barna til að njóta jafnlangs tíma með foreldrum sínum eftir fæðingu eins og þau börn sem eiga heima í nágrenni við fæðingarþjónustu.

Réttur barnsins
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð, ásamt fleiri þingmönnum, fram frumvarp með breytingu á lögum um fæðingarorlof.  Með frumvarpinu er lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Málið hefur fengið umfjöllun á Alþingi og er nú í vinnslu hjá Velferðarnefnd.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins