4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Kvef eða inflúensa?

Kvef eða inflúensa?

0
Kvef eða inflúensa?
Guðný Bogadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum

Það eru um 200 tegundir vírusa sem valda kvefi en 3 meginstofnar inflúensu. Hver stofn hefur fjölda undirgerða sem breytast á hverju ári og því þarf að bólusetja við inflúensu á hverju hausti.

Einkenni kvefs

  • Nefrennsli, sem í fyrstu er glært en þykknar gjarnan og verður litað
  • Stíflað nef
  • Hálsbólga
  • Hósti og hnerri

Einnig getur verið hiti, venjulega ekki hár, eyrnaverkur, þreyta, slappleiki og höfuðverkur. Einkenni versna oft fyrstu 2–3 dagana en jafna sig síðan aftur og geta varað eina til tvær vikur.

Inflúensa

Einkenni byrja skyndilega, hraðar en kvef og einkenni eru meðal annars;

  • Hár hiti
  • Beinverkir
  • Þreyta og slappleiki
  • Höfuðverkur
  • Þurr hósti

Einnig getur fylgt nefrennsli og hnerri.

Flestir jafna sig á viku þó þreyta og slappleiki geti verið til staðar í 2–3 vikur eftir inflúensusmit.

Fólki með undirliggjandi sjúkdóma og eldra fólki er ráðlagt að bólusetja sig gegn inflúensu. Fái þessir hópar samt sem áður inflúensu er til lyf sem dregur úr einkennum og styttir sjúkdómsferil sé það gefið á fyrstu sólarhringum veikinda.

Meðferð

Sýklalyf virka ekki, hvorki gegn kvefi né inflúensu. Hægt er að draga úr einkennum með því að hvíla sig, drekka vel af vökva, nota hitalækkandi lyf, verkjalyf, slímlosandi lyf og nefdropa.

Hvenær á að leita læknis

Hraustir og heilbrigðir einstaklingar þurfa sjaldnast að leita til læknis nema ef um er að ræða mjög háan hita og óvenju slæman höfuðverk, kviðverki eða brjóstverk.

Lungnabólga, öndunarerfiðleikar og mæði geta verið alvarlegir fylgikvillar inflúensu, einkum hjá þeim einstaklingum sem eru veikir fyrir og með undirliggjandi lungnasjúkdóma.

Vegna smithættu er fólki ráðlagt að hringja á undan sér þurfi það að koma til læknis, setjast afsíðis og jafnvel biðja um öndunargrímu telji það sig vera með inflúensu.

Hvernig er hægt að draga úr líkum á að smita aðra

Kvef og inflúensa smitast loftborið, það eru litlir dropar sem fara út í andrúmsloftið þegar við hóstum eða hnerrum. Hægt er að draga úr smiti með því verja vit sín þegar hóstað er eða hnerrað, þvo hendur og vera sem minnst innan um fólk þar til einkenni ganga yfir.

Hægt er að draga úr líkum á inflúensusmiti með árlegum bólusetningum gegn inflúensu.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Guðný Bogadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum