7.3 C
Selfoss

Af heilsugæslumálum í Rangárþingi

Vinsælast

Nokkuð hefur verið fjallað um málefni heilsugæslunnar í Rangárþingi að undanförnu eins og m.a. má sjá af ályktunum sveitarstjórna sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Eitthvað hefur verið um mannabreytingar og misskilnings hefur gætt í umræðunni. Það getur valdið óöryggi meðal þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda og viljum við því af því tilefni setja hér á blað nokkur orð um starfsemina.

Í Rangárþingi rekur Heilbrigðisstofnun Suðurlands tvær heilsugæslustöðvar sem staðsettar eru á Hellu og Hvolsvelli. Þær starfa sem ein eining innan Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, kenndar við Rangárþing og þjóna þær allri Rangárvallasýslu. Hjá heilsugæslustöðvum Rangárþings starfa alls sextán manns sem þjóna jöfnum höndum báðum stöðvum.

Afgreiðslutími beggja stöðvanna er frá klukkan 8 og 16 alla virka daga. Neyðarvakt læknis er þó alltaf til staðar í Rangárþingi ásamt sjúkrabíl, allan sólarhringinn, alla daga ársins. Eftir kl. 16 á virkum dögum og um helgar fer öll almenn móttaka fram á heilsugæslunni og bráðamóttökunni á Selfossi. Tekið er á móti öllum slysum og bráðatilfellum á afgreiðslutíma heilsugæslunnar en vaktlæknir á hverjum tíma er ýmist staðsettur á Hvolsvelli eða Hellu. Skipulag læknavaktar í Rangárþingi hefur verið óbreytt frá 2011. Hjúkrunarfræðingar í samráði við lækni á vakt forgangsraða þeim sem þurfa samdægurs á fá þjónustu í viðeigandi úrræði. Í Rangárþingi er veitt öll önnur almenn heilsugæslu- og hjúkrunarþjónusta.

Vel hefur gengið að manna allar stöður heilsugæslunnar í Rangárþingi enda er svæðið rómað fyrir náttúrufegurð og veðursæld auk þess að vera mikil matarkista. Þannig hefur tekist að halda úti kröftugri og góðri heilsugæsluþjónustu í takt við aukin verkefni í heimahjúkrun og samfara stórauknum fjölda ferðamanna. Hlíðin er græn þótt komið sé fram í janúar og það sama mun gilda um heilsugæsluna í Rangárþingi um ókomna tíma með stuðningi sveitunga. Um leið viljum við fyrir hönd starfsfólks þakka fyrir velgjörðir og góðar kveðjur um hátíðarnar.

Í Rangárþingi 26. janúar 2017.

Björn Guðmundur Snær Björnsson, yfirlæknir
Ólöf Árnadóttir, hjúkrunarstjóri

Nýjar fréttir