5.6 C
Selfoss
Home Fastir liðir Sunnlenski matgæðingurinn Hversdagslegur hamborgari

Hversdagslegur hamborgari

Hversdagslegur hamborgari
Gissur Kolbeinsson

Ég þakka Pétri góðvini mínum traustið. Í hugum margra eru hamborgarar hversdagslegir en  með einföldum hætti má færa þá í sparigallann. Hér að neðan kasta ég fram uppskrift að hreindýraborgara með sult-uð-um rauðlauk og trufflumajón-esi sem ég held mikið upp á. Þessi samsetning er alger rússíbani fyrir bragðlaukana og ekki skemmir einfaldleikinn fyrir.

Hreindýrabuffið
800 gr. hreindýrahakk
½ dl rasp
2 egg

Öllum hráefnum er blandað saman í skál og hnoðuð saman með höndum. Deiginu er skipt í fjögur almennileg 200 gr. buff. Sjálfur krydda ég buffið við steikingu og einungis með flögusalti og pipar enda þarf ekki að bæta gæðahráefni eins og hreindýrahakk upp með öðru. Metnaðarfulla fólkið þarna úti útbýr sitt eigið rasp, við hin notum raspið frá Kötlu eða myljum Ritz-kex og notum það í stað rasps. Ég ábyrgist að þeir sem leggja á sig að bæta nautafitu við magurt hreindýra-hakkið munu uppfylla blauta drauma hamborgaraunnenda um safaríkan borgara.
Þegar kemur að steikingu er mikil-vægt að hita grillið eða pönn-una vel og steikja buffin við háan hita í stutta stund og hvíla þau á milli steikinga. Þannig náum við jafnri steikingu í gegn. Frá mínum bæjardyrum séð er ríkissteikingin medium rare en auðvitað steikir hver og einn eftir eigin smekk. Mikil-vægt er að leggja sneiðar af sunnlenskum mygluosti ofan á buffin í lokin. Hamborgara-brauðin þarf að rista. Til þess notum við pönnuna, grillið eða ofninn. Gott er að smyrja brauðin með hvítlaukssmjöri og rista þau svo. Þessi meðferð bragbætir brauðið til muna.

Sultaður rauðlaukur
3 rauðlaukar
Olía og smjör til steikingar
½ dl balsamikedik
3 msk. sykur
Góður dass af púrtvíni. Því meira, því betra.
Salt og pipar

Að sulta lauk er tímafrekt en hverrar mínútu virði. Ég geri yfirleitt aðeins auka og á í ísskápnum næstu daga. Laukurinn er afhýddur (en ekki hvað?) og sneiddur. Næst er hann svitaður á pönnu við miðlungshita í smjöri og olíu í 10 – 15 mínútur. Restinni af hráefnunum er blandað saman við og látið malla á lágum hita í um 40 mínútur eða þar til sultuð áferð næst fram. Hér er þolinmæði lykilatriði og passa þarf upp á að hræra með reglulegu millibili. Hér má bragðbæta með t.d. hvítlauk og hunangi og minnka sykurinn á móti.

„Trufflað“ majónes
2 eggjarauður
5 dl olía
1 tsk. dijon sinnep
½ sítróna
2-3 msk. truffluolía
Salt og pipar

Hér einföldum við okkur lífið og látum töfrasprotann eða matvinnsluvélina um að hræra. Eggjarauðurnar og sinnepið eru settar í skál, saltað og piprað og loks kreist úr hálfri sítrónu yfir. Við hrærum þar til blandan verður kremkennd. Næst er að hella olíunni saman við á meðan hrært er við-stöðu-laust. Fyrst í litlum skömmt-um og svo í mjórri bunu. Trufflu-olíunni er bland-að saman við í lokin eftir smekk en hún gefur mikið og gott bragð sem er algert lykilatriði.

Samsetningin
Eðli málsins samkvæmt þarf að klæða afurðir eldamennsk-unnar með hamborgara-brauð-inu og ekki má spara við sig í majónesinu. Ímyndunaraflið er svo notað til að finna fleiri álegg á borgarann ef vill. Sjálfur hef ég notað salat og tómata, fyrst og fremst til að fá smá lit. Upplagt er að útbúa sætkartöflufranskar sem með-læti. Réttur af þessu kalíberi verðskuldar að vera skolað niður með góðu rauðvíni.